Afmælisbörn 2. janúar 2022

Pjetur Hallgrímsson

Glatkistan hefur tvö afmælisbörn á skrá sinni þennan annan dag ársins.

Trommuleikarinn Pjetur Sævar Hallgrímsson eða Pjetur í Tónspili er sextíu og níu ára gamall í dag. Pjetur sem hefur starfrækt verslunina Tónspil á Norðfirði til margra ára hefur leikið á trommur með ótal hljómsveitum í gegnum tíðina en mest þó fyrir austan. Þeirra á meðal má nefna sveitir eins og Amon Ra, Lótus, Heimavarnarliðið, Bumburnar, Blúsbrot Garðars Harðar, Experiment, Martröð, Ósíris og Sjöttu pláguna.

Annar Austfirðingur, reyndar ættaður úr Mosfellsbænum, Þórhallur Árnason bassaleikari og lögreglumaður er fimmtíu og sjö ára gamall í dag. Þórhallur lék með fjölda hljómsveita hér fyrrum en frægust þeirra hlýtur að teljast Gildran sem gaf út nokkrar plötur við nokkrar vinsældir, meðal annarra sveita hans má nefna Partý, Pass, Cosinus og Venus.

Vissir þú að árið 1985 var hljómsveit starfandi undir nafninu Flakavirkið en það er færeyska og merkir frystihús?