Afmælisbörn 14. janúar 2022

Kristján Magnússon

Í dag eru tónlistartengd afmælisbörn Glatkistunnar tvö:

Mývetningurinn Stefán Jakobsson er fjörutíu og tveggja ára gamall í dag. Stjarna hans hefur risið hátt á síðustu árum, bæði sem söngvari hljómsveitarinnar Dimmu en einnig almennt fyrir söngverkefni sín s.s. Föstudagslögin, þá hefur hann sent frá sér sólóplötu. Stefán sem er af miklum tónlistarættum, er og hefur verið í ýmsum öðrum hljómsveitum en Dimmu en má þar nefna sveitir eins og MaidenIced, Douglas Wilson, Alþingi, Dralon og Þingtak.

Þá hefði Kristján Magnússon píanóleikari og ljósmyndari einnig átt afmæli þennan dag en hann lést árið 2003. Kristján (fæddur 1931) spilaði með fjölda danshljómsveita á sínum tíma, hann rak eigin sveitir um árabil (Hljómsveit Kristjáns Magnússonar, Tríó Kristjáns Magnússonar og KR-tríó) en lék einnig í sveitum eins og KK-sextett, Hljómsveit Björns R. Einarssonar og Trad kompaníinu. Kristján var sem fyrr segir ljósmyndari og tók m.a. ljósmyndirnar af Hljómum á fyrstu breiðskífu þeirrar sveitar.

Vissir þú að aðeins voru til um 500 útvarpstæki í landinu þegar Ríkisútvarpið tók til starfa árið 1930?