Sköllótta tromman (1989-96)

Sköllótta tromman

Margt er á huldu varðandi fjöllistahóp eða hljómsveit sem kallast hefur Sköllótta tromman en nafnið hefur verið notað af hópi mynd- og tónlistarmanna í tengslum við gjörninga og tónlistarsköpun síðan 1989 að minnsta kosti, óvíst er þó hvort hópurinn er enn starfandi.

Nafnið Sköllótta tromman kemur fyrst fyrir í fjölmiðlum árið 1989 og í tengslum við tónlistarsköpun og þá nýútkomna plötu sem virðist hafa verið gefin út með hópnum. Engar upplýsingar finnast um þá plötu en hafi hún komið út á þeim tíma var hún endurútgefin árið 2016 á netinu undir nafninu Tjón í Valhöll – ef ekki þá kom hún í fyrsta sinn út 2016. Tónlistin sem að mestu er instrumental er eins konar aðgengilegt rafpopp.

Sköllótta tromman sem fjöllista- eða gjörningahópur hélt árlega listahátíð í eigin nafni á árunum 1989 til 1996 en samnefnd hljómsveit kom þar einnig við sögu og lék á tónleikum tengdum hátíðunum. Listahátíðunum var líklega hætt þegar einn meðlima hópsins, Guðjón Rúdolf Guðmundsson fluttist til Danmerkur en Guðjón er líkast til þekktastur fyrir lögin Húfan og Minimania sem hann gaf út í eigin nafni og nutu nokkurra vinsælda árið 2003. Önnur nöfn sem hafa verið tengd hljómsveitinni Sköllóttu trommunni eru Ómar Stefánsson myndlistarmaður og Óskar Thorarensen mynd- og tónlistarmaður sem vann fyrrnefnda plötu með Guðjóni Rúdolf undir nafninu Jafet Melge en það aukasjálf Óskars hefur komið við sögu víða í listaheiminum, nafn Óskars er jafnframt þekkt í tengslum við dúettinn Stereo Hypnosis og tónlistarhátíðina Extreme Chill. Þess má geta að gerningasveitin Inferno 5 er nátengd Sköllóttu trommunni og sömu meðlimir koma þar við sögu að einhverju leyti.

Annars eru upplýsingar um þessa hljómsveit / fjöllistahóp afar takmarkaðar og óskað er eftir frekari upplýsingum um tilurð hans.

Efni á plötum