Sigríður Rósa Kristinsdóttir (1923-2016)

Sigríður Rósa Kristinsdóttir

Sigríður Rósa Kristinsdóttir var öllu þekktari sem baráttukona fyrir launakjörum og sem fréttaritari útvarpsins heldur en fyrir tónlist en hún sendi samt sem áður frá sér tvær kassettur í eigin nafni.

Sigríður Rósa Kristinsdóttir var fædd norður í Fnjóskadal sumarið 1923 og ólst að mestu upp fyrir norðan en bjó þó lengst af á Eskifirði eftir að hafa m.a. verið búsett í Reykjavík um tíma. Á Eskifirði starfaði hún á ýmsum vettvangi, við fiskvinnslu, verslunarrekstur og gerði m.a.s. út bát um tíma, þar var hún jafnframt virk í verkalýðsbaráttunni og var óhrædd við að láta skoðanir sínar í ljós – einnig sem fréttaritari Ríkisútvarpsins á Eskifirði en því starfi gegndi hún um langt skeið.

Árið 1993, þegar Sigríður Rósa varð sjötug komu út tvær bækur þar sem hún kom við sögu, annars vegar ævisaga hennar skráð af Elísabetu Þorgeirsdóttur undir titlinum Þú gefst aldrei upp Sigga!, og hins vegar í samtalsbók Þóris S. Guðbergssonar, Lífsgleði þar sem hún var meðal viðmælenda ásamt fleirum.

Lítið er af tónlistarferli Sigríðar Rósu að segja, hún söng lengi í kórum fyrir austan en þegar hún fagnaði sjötugs afmæli sínu sendi hún frá sér tvær kassettur með samtals fimmtíu og tveimur lögum, þar sem hún naut aðstoðar Ágústs Ármanns Þorlákssonar á píanó á annarri en nokkurra austfirskra tónlistarmanna á hinni. Á kassettunum tveimur sem báru titlana Debut langömmu I og II söng hún blöndu af íslenskum og erlendum lögum af ýmsu tagi. Svo virðist sem útgáfan hafi ekki farið víða í dreifingu.

Sigríður Rósa Kristinsdóttir lést haustið 2016 á nítugasta og fjórða aldursári.

Efni á plötum