Soffía og Anna Sigga (1958-61)

Anna Sigga og Soffía

Tvíeykið Soffía og Anna Sigga voru víðfrægar í kringum 1960 og skipuðu sér þá í hóp skemmtikrafta dúetta eins og Baldur og Konni og Gunnar og Bessi, þær voru jafnframt meðal allra fyrstu barnastjarna Íslandssögunnar.

Þær Soffía Árnadóttir (f. 1949) og Sigríður Anna Þorgrímsdóttir (f. 1947) voru ungar að árum þegar þær urðu stjörnur í íslenskri dægurlagamenningu, þær voru nágrannar og mun mikið hafa verið sungið meðal krakkanna í götunni þar sem þær bjuggu auk þess sem Anna Sigga (sem oft hefur ranglega verið kölluð Anna Sigríður) lék á gítar. Árni Ísleifsson tónlistarmaður og faðir Soffíu þurfti því ekki að leita langt yfir skammt þegar hann fékk þær til að syngja í svokölluðum jólakabarett fyrir börn í Austurbæjarbíói fyrir jólin 1958, þær stöllur voru þá aðeins níu og ellefu ára gamlar.

Vorið 1959 birtust þær aftur á sviði Austurbæjarbíós þegar þær komu fram á miðnæturtónleikum ásamt fjölmörgum bráðungum söngvurum við undirleik hljómsveitar Árna Ísleifs en þar sungu þær tvö lög eftir Árna. Endurtaka þurfti skemmtunina þar sem færri komust að en vildu og þær Soffía og Anna Sigga urðu svo landsfrægar um sumarið þegar tveggja laga plata kom út með þeim þar sem þær sungu lagið Órabelgur (e. Árna) en á hinni hlið plötunnar var lagið Æ, ó, aumingja ég í flutningi Gerðar Benediktsdóttur. Bæði lögin nutu töluverðra vinsælda en lag Gerðar hefur þó lifað lengur.

Um haustið kom út önnur plata en að þessu sinni voru þær einar í sviðsljósinu með lögin Komdu niður / Snjókarlinn sem bæði slógu rækilega í gegn og ómuðu mikið í óskalagaþáttum útvarpsins um veturinn, þau hafa fyrir löngu síðan skipað sér sæti innan um sígildar perlur íslenskrar tónlistar. Margar heimildir herma að þriðja platan hafi einnig komið út sama haust, 1959 en líklega kom hún þó ekki fyrr en vorið 1960 – sú plata hafði að geyma lögin Óli prakkari / Sumar er í sveit, sem auðvitað urðu mjög vinsæl eins og hin lögin. Öll lögin sem þær Soffía og Anna Sigga sungu inn á plötur voru eftir Árna Ísleifsson og Núma Þorbergs (textar), utan Komdu niður sem var eftir Jón Sigurðsson (bankamann) en það var fyrsta lagið sem kom út eftir hann á plötu. Stjörnuplötur, undirmerki Íslenzkra tóna Tages Ammendrup, gaf út plöturnar.

Anna Sigga og Soffía

Þær Soffía og Anna Sigga komu mikið fram á árunum 1958-60, sungu á hvers kyns skemmtunum og barnaböllum, og fóru m.a. til Keflavíkur til að skemmta. Sjálfar voru þær ekkert alltof hrifnar af athyglinni enda ungar að árum, og smám saman varð áhuginn minni hjá þeim. Þegar þeim bauðst að gera fjórðu plötuna afþökkuðu þær það og hættu líklega að koma fram opinberlega fljótlega eftir áramótin 1960-61, og lögðu þá sönginn á hilluna fyrir lífstíð. Eftir standa plötur þeirra sem minnisvarði um vinsældir þeirra sem barnarstjörnur.

Lögin fimm hafa flest öll ratað inn á safnplötur í gegnum tíðina eins og títt er um tónlist frá þessum árum en einnig hafa aðrir listamenn tekið þessi lög og gert að sínum, þannig gáfu Dúmbó og Steini út lagið Sumar er í sveit (1978), Kór Snælandsskóla, Katla María og Birgitta Haukdal hafa t.d. öll sent frá sér útgáfur af Snjókarlinum og Komdu niður, og reyndar hafa fjölmargir aðrir sungið síðarnefnda lagið á plötum sínum s.s. Ruth Reginalds, Selma Björnsdóttir og Karl Örvarsson svo aðeins fáeinir séu nefndir en lagið er fyrir löngu síðan orðið sígilt barnalag.

Efni á plötum