Afmælisbörn 14. maí 2022

Ámundi Ámundason

Tónlistartengd afmælisbörn Glatkistunnar eru þrjú í dag:

Ámundi Ámundason (Ámi) einn þekktasti umboðsmaður og plötuútgefandi áttunda áratugarins er sjötíu og sjö ára gamall í dag. Ámundi annaðist umboðsmennsku fyrir hljómsveitir eins og Hljóma, auk þess að gefa út plötur undir merkjum ÁÁ-records. Hann markar þannig upphaf útgáfusögu Stuðmanna og Jóhanns G. Jóhannssonar en alls komu út um fjörutíu titlar undir útgáfumerki Ámunda.

Njáll (Bergþór) Sigurjónsson hljómborðs- og bassaleikari er sjötíu og átta ára gamall í dag. Njáll sem hefur síðustu áratugina mestmegnis alið manninn í Færeyjum, lék hér á árum áður með sveitum eins og Flamingo kvartettnum, Lion-tríóinu, Naustinu, Bergmönnum og Dixielandhljómsveit Árna Ísleifssonar en hann hefur einnig leikið inn á nokkrar plötur.

Alli Rúts (Albert Sigurður Rútsson) á einnig afmæli en hann er sjötíu og sex ára. Alli var lengi þekktur skemmtikraftur, var iðulega fenginn til að vera kynnir á hvers kyns skemmtunum enda oft kynntur sem „hinn bráðsnjalli“ Alli Rúts, en hann var einnig þekktur í gerfi jólasveins. Þannig uppáklæddur gaf hann einmitt út fjögurra laga plötuna Kátir voru krakkar, sem inniheldur m.a. Ég er jólasveinn, sem enn heyrist reglulega í útvarpi fyrir jól.

Vissir þú að hljómsveitarnafnið Cliff Clavin er sótt til persónu í sjónvarpsþáttunum Cheers (Staupasteini)?