Alli Rúts (1946-)

Alli Rúts[2]

Alli Rúts

Alli Rúts (Albert Sigurður Rútsson) var áberandi í íslensku skemmtanalífi einkum á sjöunda áratug síðustu aldar en síðar einna þekktastur fyrir bílasölur og hótel- og veitingahúsarekstur.

Alli (f. 1946) fæddist í Skagafirðinum, sonur Rúts Hannessonar harmonikkuleikara og hljómsveitastjóra en fluttist til Siglufjarðar, þar sem hann síðan ólst upp. Þar byrjaði hann að troða upp um eða eftir 1960 en fór innan við tvítugt suður til Reykjavíkur til að freista gæfunnar, hann vakti fljótlega athygli fyrir skemmtilega framkomu og varð eftirsóttur sem kynnir á skemmtunum ýmis konar, hann fór einnig með gamanmál og söng gamanvísur oft með öðrum slíkum skemmtikröftum eins og Ómari Ragnarssyni, Gunnari Eyjólfssyni og Bessa Bjarnason að ógleymdum Karli Einarssyni eftirhermu en þeir félagar komu fram sem Gög og Gokke.

Alli var einnig eftirsóttur sem jólasveinn í kringum jólahátíðir og er líklega einna þekktastur fyrir það hlutverk sitt. Hann var einmitt í jólasveinagírnum þegar hans eina plata, Kátir voru krakkar: 4 barnalög, kom út á vegum Fálkans fyrir jólin 1973, á þeirri plötu var að finna „jólalög“ auk bragsins um Línu Langsokk, reyndar hafði þá útgáfu plötunnar verið seinkað um ár vegna höfundaréttamála en um líkt leyti kom út sams konar plata með Hönnu Valdísi Guðmundsdóttur á vegum Svavars Gests, sem hafði að geyma lagið um Línu. Það varð úr að söngur Alla um Línu var bannaður í útvarpi. Platan hlaut fremur slaka dóma í Alþýðublaðinu en heldur betri í Morgunblaðinu. Eitt laganna fjögurra, Ég er jólasveinn“ naut einhverra vinsælda og hefur meira að segja komið út á jólasafnplötum síðar.

Þar með var hins vegar tónlistarferli Alla Rúts lokið en hann var eitthvað viðloðandi skemmtanabransann næstu árin áður en hann sneri sér alfarið að sölu bíla sem hann hafði starfað við síðan 1964, og rak um árabil bílasölur undir eigin nafni fram á tíunda áratuginn. Í seinni tíð hefur hann staðið í hótel- og veitingahúsarekstri, auk annarra starfa.

Efni á plötum