Afmælisbörn 16. maí 2022

Jónas Sigurðsson

Þrjú tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni:

Jónas Sigurðsson skal fyrstan telja en hann er fjörutíu og átta ára gamall í dag. Jónas hafði spilað á trommur með fjölmörgum hljómsveitum á sínum yngri árum og má þar nefna bönd eins Sólstrandagæjana, Trassana, Ýmsa flytjendur og Blöndustrokkana. Sólóferill Jónasar hófst 2006 þegar fyrsta plata hans kom út en síðan hafa komið þrjár plötur með honum. Hin síðari ár hefur Jónas leikið með hljómsveitum eins og Poppvélinni og nú síðast Dröngum.

Emilíana Torrini (Davíðsdóttir) á einnig afmæli en hún er fjörutíu og fimm ára gömul í dag. Emilíana sló fyrst í gegn með hljómsveitinni Spoon, í söngkeppni framhaldsskólanna og í ýmsum söngleikjum sem settir voru á svið um miðjan tíunda áratug liðinnar aldar. Fyrsta sólóplata hennar kom út 1995 en alls hafa komið út með henni sjö breiðskífur auk fjölda smáskífa hér heima og erlendis.

Björn R. Einarsson básúnuleikarinn kunni átti einnig afmæli þennan dag en hann lést árið 2014. Björn, sem var fæddur 1923, lék bæði á harmonikku og básúnu í mörgum af þekktustu hljómsveitum landsins, lék inn á tugi platna og söng jafnvel inn á plötur, margir þekkja t.d. lagið Því ertu svona uppstökk? í flutningi hans. Björn lék inn á plötu sem almennt er talin fyrsta danslagaplata Íslands.

Vissir þú að plata Spírandi bauna sem kom út 1996 fékkst hvergi auglýst og dreift vegna umslagsins sem sýndi samsetta mynd af Adolf Hitler og Ólafi Ragnari Grímssyni?