Afmælisbörn 12. júlí 2022

Stefán Sigurkarlsson

Fimm afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Ríó-liðinn góðkunni Ágúst Atlason er sjötíu og tveggja ára í dag en hann er eins og allir vita einn af þeim sem skipuðu Ríó tríó, sem gaf út fjölda platna á árum áður. Ágúst hafði verið í Komplex, Næturgölum og Nútímabörnum áður en hann gekk til liðs við Ríóið en einnig hefur hann verið í hljómsveitum eins og Alfa beta, sem gaf út plötu seint á níunda áratugnum. Ágúst er faðir Telmu Ágústsdóttur er söng Tell me í Eurovision keppninni árið 2000.

Ólafur Garðarsson trommuleikari er einnig sjötíu og tveggja ára gamall á þessum degi. Ólafur lék með ógrynni þekktra hljómsveita á sínum tíma og má þeirra á meðal nefna Tilveru, Óðmenn, Change, Trúbrot, Pónik, Acropolis, Celsíus, Náttúru og Tempó svo aðeins brot af þeim séu talin upp. Þá þarf vart að nefna að hann lék inn á fjölda platna á trommaraferli sínum.

Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hún lést árið 2020 á fimmtugasta og sjöunda aldursári sínu. Hallfríður (f. 1964) nam tónlist í Bretlandi og Frakklandi og eftir nám kom hún heim til Íslands og lék m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hún stofnaði m.a. kammerhópinn Camerarctica, fékkst við kennslu og lék inn á nokkrar plötur en þekktust var hún líklega fyrir verkefni sitt um Maxímús músíkús sem varð þekkt víða um heim.

Stefán Sigurkarlsson lyfjafræðingur og tónskáld átti afmæli þennan dag en hann lést árið 2016. Stefán (fæddur 1930) rak apótek um árabil á landsbyggðinni og í Reykjavík en hann var einnig tónskáld og samdi nokkurn fjölda sönglaga, nokkur þeirra laga komu síðan út á plötu.

Að síðustu er hér nefndur söngvarinn Guðjón Guðmundsson eða Gaupi eins og hann er oft nefndur en hann er þekktastur í dag fyrir íþróttafréttamennsku sína. Gaupi, sem í dag er sextíu og átta ára gamall var hins vegar söngvari í nokkrum hljómsveitum á áttunda áratugnum og eru þær helstu Jeremías, Námsfúsa Fjóla, Fjóla, Goðgá og Ernir.

Vissir þú að Margrét Jónsdóttir ritstjóri Æskunnar til margra ára var höfundur textans að laginu Ísland er land þitt?