Afmælisbörn 3. ágúst 2022

Ásgrímur Angantýsson

Tvö afmælisbörn tengd íslenskri tónlist eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Bjarki Sveinbjörnsson doktor í tónvísindum er sextíu og níu ára. Bjarki starfaði fyrrum sem tónmenntakennari en eftir að hann lauk doktorsnámi sínu 1998 um tónlist á Íslandi á 20. öld með áherslu á upphaf og þróun elektrónískrar tónlistar á árunum 1960-90, hefur hann mestmegnis starfað á fræðasviðinu. Hann starfrækir m.a. með dr. Jóni Hrólfi Sigurjónssyni tónlistarvefina Músík.is og Ísmús.is, auk þess að veita Tónlistarsafni Íslands forstöðu.

Þá er Ásgrímur Angantýsson tónlistarmaður og prófessor í málvísindum fimmtugur í dag og á því stórafmæli. Ásgrímur hefur leikið á hljómborð, harmonikku og fleira með ýmsum sveitum eins og Loftskeytamönnum, Antik, Karakter, Raufarhafnarbandinu, Ferlíki, Nefndinni og Sífrera, svo nokkur hljómsveitanöfn séu nefnd.

Vissir þú að Hallbjörg Bjarnadóttir söngkona átti tvíburasystur?