Afmælisbörn 13. ágúst 2022

Halldór Lárusson

Afmælisbörn Glatkistunnar eru sex talsins í dag:

Ingunn Gylfadóttir tónlistarkona er fimmtíu og þriggja ára gömul á þessum degi. Ingunn var aðeins þrettán ára gömul þegar plata með henni, Krakkar á krossgötum kom út en síðar vakti hún verulega athygli fyrir framlag sitt í undankeppnum Eurovision ásamt Tómasi Hermannssyni en þau gáfu út plötu saman undir nafninu Piltur og stúlka og síðar komu þau að barnaefni undir nafninu Ferðafélagi barnanna.

Norðfirðingurinn Einar Ágúst Víðisson tónlistarmaður á fjörutíu og níu ára afmæli. Einar Ágúst var í hljómsveitum á yngri árum á heimaslóðum s.s. Kannsky, Fiskilykt og Ozon áður en hann gekk til liðs við Selfyssingana í Skítamóral og varð þjóðþekktur söngvari. Síðan hefur hann verið í ýmsum skammlífum hljómsveitum eins og Englum, Phönix, Svörtu sauðunum og Taktík auk þess að hafa unnið og gefið út sólóefni, tekið þátt í og sigrað lagakeppnir eins og Landslagið og undankeppni Eurovision en hann fór einmitt í lokaúrslit síðarnefndu keppninnar ásamt Telmu Ágústsdóttur árið 2000.

Tvíburarnir Einar Vilberg gítarleikari og bassaleikarinn Stefán Vilberg Einarssynir eiga einnig afmæli í dag en þeir eiga þrjátíu og átta ára afmæli. Þeir bræður voru um tíma áberandi í sveitum eins og Noise sem hefur gefið út nokkrar plötur, og er reyndar enn starfandi.

Halldór Lárusson trommuleikari er fimmtíu og níu ára gamall í dag. Halldór hefur leikið með ógrynni hljómsveita í gegnum tíðina og hér eru nokkrar þeirra nefndar bæði þekktar og óþekktar: Spilafífl, Með nöktum, MX-21, Leiksvið fáránleikans, PS&CO, Lemúrar, Meðbyr, Sultur, Thin Jim, Bodies, Menn og Mögulegt óverdós svo aðeins nokkrar séu nefndar.

Leifur Þórarinsson tónskáld átti einnig þennan afmælisdag en hann var fæddur 1934. Hann nam fiðluleik, tónfræði og tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík en fór síðan í tónsmíðanám til Austurríkis, Þýskalands og Bandaríkjanna. Eftir Leif liggja fjölmörg tónverk aðallega í formi kammerverka en hann samdi einnig tónlist fyrir leikhús. Leifur lést 1998.

Vissir þú að flautuleikarinn Gísli Helgason frá Vestmannaeyjum lærði á blokkflautu hjá Oddgeiri Kristjánssyni?