Afmælisbörn 16. október 2022

´Jóhanna Guðrún

Tvær tónlistarkonur koma við sögu á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Jóhanna Guðrún (Jónsdóttir) söngkona er þrjátíu og tveggja ára gömul í dag. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún gefið út nokkrar plötur, þar af höfðu komið út þrjár plötur með henni þegar hún var aðeins tólf ára gömul. Hún gaf einnig út plötuna Butterflies and Elvis árið 2008 undir nafninu Yohanna en hún er að sjálfsögðu þekktust fyrir árangur sinn í Eurovision keppninni 2009 þegar hún söng lagið Is it true? inn í hjörtu Evrópubúa og endaði í öðru sæti keppninnar. Minna hefur farið fyrir henni undanfarið.

Tónlistarkonan Sigurlaug Gísladóttir á einnig afmæli á þessum degi en hún er þrjátíu og átta ára gömul. Sigurlaug sem er þekktari undir nafninu Mr. Silla hefur gefið út tvær plötur, aðra reyndar í félagi við Mongoose. Hún vakti þó fyrst athygli þegar hún sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna 2004 ásamt Sunnu Ingólfsdóttur en var síðan í sveitum eins og Múm, hún hefur einnig unnið tónlist í samvinnu við annað tónlistarfólk s.s. Snorra Helgason, Cheek montain thief, Ólöfu Arnalds og Hjálma.

Vissir þú að Bítlavinafélagið gaf eitt sinn út tveggja laga smáskífu undir nafninu Munið nafnskírteinin?