Bítlavinafélagið (1986-90)

Bítlavinafélagið

Saga Bítlavinafélagsins er í raun svolítið sérstök, sveitin byrjaði sem undirleikur fyrir kór, þá tók við tónleikadagskrá tengd John Lennon, útgáfa platna með frumsömdu og eldri íslenskum bítlalögum með hæfilegu glensi og við miklar vinsældir en endaði með alvarlegri frumsaminni tónlist sem sló ekki eins í gegn. Sveitin sendi frá sér nokkrar plötur.

Upphaf sveitarinnar má rekja til ársbyrjunar 1986 þegar Jón Ólafsson hljómborðsleikari sem þá hafði stjórnað Kór Verzlunarskólans um tíma, þurfti að hóa saman í hljómsveit til að spila undir á tónleikum sem þá stóðu fyrir dyrum en kórinn hafði þá afráðið að syngja nokkur Bítlalög á árshátíð skólans. Með fylgdi spilamennska á árshátíðarballinu sjálfu.

Jón fann nokkra spilafélaga með sér sem hann mun ekki hafa þekkt neitt sérstaklega fyrir utan Stefán Hjörleifsson gítarleikara sem hafði verið með honum í dúettnum Possibillies en auk þess fékk hann þá Eyjólf Kristjánsson söngvara og gítarleikara sem þá hafði m.a. starfað í Hálfu í hvoru, Rafn Jónsson trommuleikara úr Grafík og Ýr, og bassaleikarann Harald Þorsteinsson, gamla kempu sem m.a. hafði leikið með sveitum eins og Eik, Brimkló og fleiri þekktum sveitum.

Ekkert benti til að framhald yrði á samstarfinu en þegar Eyjólfi bauðst nokkrum vikum síðar að setja saman hljómsveit sem leika myndi lög eftir John Lennon á Gauki á Stöng þótti honum eðlilegast að kalla hópinn saman á nýjan leik. Sveitin sem þá þegar hafði fengið nafnið Bítlavinafélagið sló í gegn með dagskrá sína og Lennon kvöldin urðu fleiri og alltaf fyrir fullu húsi.

Nafn sveitarinnar ku hafa komið frá Haraldi bassaleikara en þeir félagar greindu frá því að fleiri tillögur hefðu komið upp, sem voru reyndar meira í anda hljómsveitanafna sjöunda áratugarins í bland við grallaraskap meðlima, þetta voru nöfn eins og Lopar, Aurar og hið ótrúlega nafn, Berklar.

Bítlavinafélagið 1986

Í beinu og eðlilegu framhaldi af þessum óvæntu vinsældum þótt þeim Bítlavinum sjálfsagt að halda eitthvað áfram meðan vinsældir leyfðu og ákváðu því annars vegar að leika á dansleikjum um land allt fram á haustið og hins vegar að senda frá sér fimm laga plötu sem innihélt eitt frumsamið lag, annað erlent með íslenskum texta og þrjá gamla slagara sem þeir höfðu tekið upp „live“ á Hótel Borg, gamla Ben E. King lagið Stand by me og bítlatengdu smellina Twist and shout og Oh Yoko. Hin lögin tvö voru tekin upp í Hljóðrita en platan hlaut heitið Til sölu og þarf ekki að kafa djúpt til að átta sig á hvaðan sá titill kemur.

Lögin fimm fengu öll ágæta spilun í útvarpi en frumsamda lagið Þrisvar í viku fékk þó mestu athyglina og varð stórsmellur sumarsins 1986, fór m.a. beint á toppinn á vinsældarlista Rásar 2. Lagið Alveg orðlaus varð einnig feikivinsælt. Gagnrýnendur voru ennfremur nokkuð sáttir við plötuna en hún fékk ágæta dóma í DV og Morgunblaðinu og þokkalega í Helgarpóstinum.

Bítlavinafélagið naut einnig mikillar velgengni á sveitaböllunum og dvaldist langtímum það sumarið í hljómsveitarútunni. Sveitin varð fyrir því á Akureyri að brotist var inn í rútuna og lager sveitarinnar af klámvideóspólum stolið. Þjófurinn náðist þó á göngu í bænum með videóspólurnar í plastpoka svo Bítlavinir urðu ekki fyrir miklu tjóni.

Bítlavinafélagið var aldrei hugsað til lengri tíma, upphaflega einungis til að leika á fyrrnefndum Lennon-kvöldum og síðan aðeins fram á haustið en Jón hljómborðsleikari var þá á leið til Hollands í tónlistarnám. Það var því ekkert útlit fyrir áframhaldandi samstarfi en þegar þeim félögum bauðst að spila á samkomu Íslendingafélagsins þann 1. desember í Kaupmannahöfn slógu þeir til. Í þeirri ferð varð Eyjólfur fyrir því óláni að fótbrotna.

Bítlavinir ásamt Steingrími Hermannssyni

Fljótlega eftir áramótin 1986-87 bárust fregnir af því að Bítlavinir myndu koma saman aftur um vorið og herja á sveitaböllin rétt eins og sumarið áður enda hafði það gefist vel. Í raun var um tvo aðskilda ballrúnti að ræða, annars vegar í apríl á vegum framsóknarflokksins með Steingrím Hermannsson í kosningaham meðferðis og síðan aftur í júlí og ágúst en þá lék sveitin í um þrjátíu og fimm skipti um land allt. Sveitin lék einnig undir hjá þeim félögum Jóni og Stefáni í Possibillies þegar þannig stóð á hjá þeim.

Í maí fór sveitin í Hljóðrita og tók upp sex laga plötuna Bítlavinafélagið býr til stemmningu, helmingur laganna var eftir þá Jón og Stefán og hefur lagið Rúllukragapeysan mín lifað þeirra lengst en einnig náðu Þú gafst mér gítarnögl og Þorvaldur nokkrum vinsældum, síðarnefnda lagið var reyndar lagið Annabel sem Daniel Boone hafði sent frá sér 1972 en það söng Eyjólfur með „kvenrödd“. Á þessari plötu hafði sveitin breytt nokkuð um stíl og hafði nú fjarlægst Bítlastílinn en tónlistin var nú meira í anda áttunda áratugarins. Platan seldist ekki nándar nærri jafn vel og Til sölu en hún fékk þó þokkalega dóma í DV, einu gagnrýninni sem birtist um hana.

Eins og sumarið á undan stóð til að leggja sveitina niður að vertíðinni lokinni enda var Stefán á leið í nám erlendis í þetta skiptið. Það liðu þó ekki margir mánuðir uns sveitin kom saman á ný og þeir félagar voru á ferð og flugi um jól og áramótin 1987-88.

Fljótlega á nýju ári (1988) var afráðið að ráðast í gerð nýrrar plötu sem að þessu sinni átti að geyma nýtt afturhvarf til bítlsins. Horfið var frá því að gefa plötuna út um vorið eins og til stóð í upphafi en þess í stað að geyma það til haustsins. Fyrir vikið var sveitin ekkert á ferðinni um sumarið, aðeins lítillega um vorið en þess í stað starfræktu þeir Jón, Rafn og Haraldur nýja hljómsveit ásamt Stefáni Hilmarssyni og Guðmundi Jónssyni sem hlaut nafnið Sálin hans Jóns míns. Sú sveit fór mikinn þetta sumar (og fleiri sumur reyndar í breyttri mynd).

Klæddir að hætti Bítlanna

Bítlaplatan beið haustsins sem fyrr segir en hún hlaut titilinn 12 íslensk bítlalög og innihélt lög sem íslenskar bítlasveitir höfðu gert garðinn frægan á sjöunda áratugnum. Þeir félagar skiptu nokkuð með sér söngnum en einnig fengu þeir Jónas R. Jónsson söngvara Flowers til að syngja Gluggann og Stefán Eggertsson söngvara Tatara til að syngja Dimmar rósir.

Það er skemmst frá því að segja að platan sló rækilega í gegn samtímis því sem hún var umdeild, flest laganna urðu gríðarlega vinsæl og urðu til að vekja nýja athygli á þessum gömlu slögurum. Á sama tíma voru fjölmargir sem gagnrýndu sveitina fyrir tiltækið og þótti lítið til koma, enda væru upprunalegu útgáfurnar í öllum tilfellum betri. 12 íslensk bítlalög seldist í bílförmum, hafði selst í um sjö þúsund og fimm hundruð eintökum fyrir jólin en náði síðar tíu þúsund eintaka markinu, menn tókust ennfremur á um hvort um eiginlegt hugsjónastarf væri að ræða eða gróðasjónarmið. Platan fékk ágæta dóma í Alþýðublaðinu, þokkalega í DV og  Tímanum en fremur slaka í Sjómannablaðinu Víkingi og tímaritinu Samúel.

12 íslensk bítlalög komu út í október og Bítlavinafélagið nýtti tímann í október og nóvember til að kynna plötuna og leika á dansleikjum, í desember tóku þeir félagar aftur á móti frí en þá var Eyjólfur að gefa út og kynna sólóplötu sína, Daga sem jafnframt naut vinsælda um sama leyti.

Um áramótin 1988-89 hætti Haraldur bassaleikari til að leika með Brimkló sem þá var endurvakin, og tók Björn Vilhjálmsson (Lola, Rokkabillyband Reykjavíkur o.fl.) sæti hans. Það varði þó einungis í fáeinar vikur og var Haraldur kominn á sinn stað þegar Bítlavinir léku lag Geirmundar Valtýssonar, Alpatwist í undankeppni Eurovision keppninnar. Það lag kom síðan út á plötu Geirmundar um sumarið, Í syngjandi sveiflu.

Vorið 1989 sendi Bítlavinafélagið frá sér smáskífu með tveim frumsömdum lögum undir titlinum Munið nafnskírteinin, en það var algengur frasi í auglýsingum tengdum sveitaböllunum. Lögin tvö, Danska lagið og Mynd í huga mér vöktu nokkra athygli og þó sérstaklega fyrrnefnda lagið sem sló rækilega í gegn og hefur ásamt Þrisvar í viku verið einkennilag sveitarinnar og aflar höfundum sínum enn í dag STEF-gjöld.

Bítlavinafélagið 1989

Platan kom út þann 5. júní á þjóðhátíðardegi Dana og seldist í um þúsund eintökum, reyndar vakti Danska lagið athygli út fyrir landsteinana og var eitthvað spilað í dönsku útvarpi. Ekki segir þó af neinum vinsældum þar í landi en til stóð jafnvel að gera danska útgáfu af Danska laginu.

Bítlavinafélagið fór sumarrúntinn í kringum landið, spilaði á um þrjátíu böllum á landsbyggðinni en hafði sig lítið í frammi á höfuðborgarsvæðinu. Sveitin lék m.a. á Þjóðhátíð Vestmannaeyinga og flutti þar þjóðhátíðarlagið Í brekkunni með aðstoð Stefáns Hilmarssonar, Þórhalls Sigurðssonar (Ladda) og Bjartmars Guðlaugssonar en lagið varð mjög vinsælt og telst í dag með sígildum þjóðhátíðarlögum. Þarna um sumarið vakti ennfremur „nýtt“ Hammond orgel Jóns nokkra athygli en það var kyrfilega merkt REO, enda hafði það þjónað áður orgelleikara bandarísku rokksveitarinnar Reo Speedwagon.

Samhliða spilamennsku um sumarið hófu þeir félagar að vinna meira með frumsamið efni og um haustið kom út breiðskífa sem eingöngu hafði að geyma lög eftir þá félaga og var tónlistin nú orðin allt öðruvísi, grallaraskapurinn var nú að mestu horfinn úr tónlistinni en þar lögðu þeir félagar allir til lög. Lögin voru tíu talsins en á geisladiskaútgáfunni var að finna eitt aukalag, live-útgáfu frá Hótel Borg af laginu Alveg orðlaus.

Bítlavinafélagið

Platan, Konan sem stelur Mogganum, olli þannig aðdáendum sveitarinnar nokkrum vonbrigðum og hún seldist fremur illa þegar hún kom út, í aðeins tvö þúsund eintökum (á vínyl-, geislaplötu- og snælduformi). Hún fékk reyndar ágæta dóma í DV en fremur slaka í Morgunblaðinu og tímaritinu Þjóðlífi, gagnrýnendur voru almennt sammála um að platan væri fremur sundurlaus og spurðu hvaða leið sveitin ætlaði að fara.

Þess má geta að hljómsveitin lék undir á einni jólaplötu sem kom út fyrir jólin 1989, Hurðaskellir og Stúfur snúa aftur en á þeirri plötu voru Magnús Ólafsson og Þorgeir Ástvaldsson í aðalhlutverkum en Bítlavinirnir fengu einnig að leggja til raddir hér og þar á plötunni.

Óneitanlega var nafn sveitarinnar, Bítlavinafélagið, orðið nokkur á skjön við innihald tónlistarinnar þegar hér var komið sögu og það var kannski ástæðan fyrir því að sveitin hætti störfum fljótlega eftir áramótin 1989-90. Meðlimir sveitarinnar voru jafnframt hlaðnir öðrum tónlistartengdum störfum, Jón og Stefán fóru að vinna aftur saman undir Possibillies nafninu og fljótlega poppuðu þeir upp sem fullgildir meðlimir hljómsveitarinnar Nýdönsk sem þá var að slá í gegn. Eyjólfur sinnti sólóferli sínum í auknum mæli og varð áberandi í undankeppnum Eurovision næstu árin, hann var t.d. annar fulltrúi Íslands í keppninni 1991, og þeir Haraldur og Rafn voru einnig áberandi í íslensku tónlistarlífi næstu árin.

Sögu Bítlavinafélagsins var þó í raun hvergi nærri lokið því sveitin hefir oftsinnis komið saman eftir 1990, fyrst sex árum síðar þegar safnplatan Ennþá til sölu kom út í tilefni af tíu ára afmæli sveitarinnar og þá fóru Bítlavinir um land allt til að fylgja því eftir en spilaði einnig heilmikið á Hótel Íslandi. Það sama ár, 1996, kom sveitin nokkuð við sögu á plötu sem bar heitið Sprelllifandi, flutti þar Danska lagið, lag Ólafs Hauks Símonarsonar Allur á iði og „nunnulagið“ Dominique, þá lék sveitin aukinheldur undir söng Radíus-bræðra á laginu Sumarást sem Þorvaldur Halldórsson og Helena Eyjólfsdóttir höfðu gert ódauðlegt tæplega þrjátíu árum fyrr með Hljómsveit Ingimars Eydal.

Bítlavinafélagið og Stjórnin

Bítlavinafélagið hefur síðan árið 1996 margoft leikið opinberlega, Rafn Jónsson trommuleikari lést 2004 eftir erfið veikindi og hefur Jóhann Hjörleifsson tekið sæti hans.

Eins og hjá vinsælum hljómsveitum er lög með henni að finna á ýmsum safnplötum sem komið hafa út í gegnum tíðina, hér eru einungis nefndar fáeinar; Þetta er náttúrulega bilun (1986), Með von í hjarta (2001), 100 Eurovision lög (2008), Í sól og sumaryl (1995), Bandalög (1989), Óskalögin 7 (2003), Í sumarsveiflu (1992) og Stuð stuð stuð (2011).

Efni á plötum