Skeljavíkurhátíðin [tónlistarviðburður] (1986-87)

Mótsvæðið í Skeljavík

Útihátíð var haldin við Skeljavík á Ströndum tvívegis á síðari hluta níunda áratugar síðustu aldar, hátíðin var ekki beinlínis í alfaraleið og var það án efa skýringin á því hvers vegna hún var ekki haldin oftar en aðsókn var fremur dræm, Vestfirðingar mættu þó vel á hátíðina.

Skeljavík er steinsnar frá Hólmavík á Ströndum og snemma sumars 1986 kom upp sú hugmynd meðal heimamanna að blása til útihátíðar um verslunarmannahelgina undir nafninu Skeljavík 86 í samstarfi nokkurra félagasamtaka á Hólmavík til að styrkja byggingu nýs félagsheimilis í þorpinu en þá hafði braggi frá því á stríðsárunum gegnt því hlutverki.

Strax var hafist handa við að hreinsa svæðið, koma fyrir sviði, danspalli, salernisaðstöðu og fleira í sjálfboðavinnu og hljómsveitin Bítlavinafélagið ráðin til að leika á dansleikjum alla helgina, einnig lék heimahljómsveitin Sko á hátíðinni auk þess sem skemmtikraftar eins og Ómar Ragnarsson, Magnús Ólafsson (Bjössi bolla) og Hólmvíkingurinn Gunnar Þórðarson komu þar fram.

Heimamenn vissu í raun ekkert hverju þeir mættu eiga von á og þurftu að gera ráð fyrir allt að 5000 manns á Skeljavíkur-hátíðinni en þegar upp var staðið mættu á hana um 1500-1600 manns, mestmegnis Vestfirðingar en Hólmavík er eins og kunnugt er nokkuð úr alfaraleið stærri byggðalaga. Þá setti strik í reikninginn að mjög kalt var á Ströndum um þetta leyti og mun hafís hafa legið fyrir landi.

Bítlavinafélagið leikur fyrir dansi

Þrátt fyrir þetta voru menn þokkalega ánægðir með aðsóknina og blásið var til annarrar Skeljavíkur-hátíðar að ári, Bítlavinir voru aftur ráðnir til að leika á dansleikjum sem og hljómsveitin Dolby frá Ísafirði en jafnframt skemmtu m.a. Sverrir Stormsker, Ómar Ragnarsson og fleiri. Þá var einnig haldin hljómsveitakeppni en hana sigraði Kargó frá Siglufirði.

Aðsóknin var heldur lakari á Skeljavík 87, aðeins um þúsund manns mættu á svæðið en hátíðarhaldarar höfðu gert ráð fyrir allt að 3000 gestum. Hátíðin var því ekki haldin að ári og hefur ekki verið haldin síðan.