SKLF (1982-83)

SKLF í Atlavík

SKLF (sem var skammstöfun fyrir Samkór lögreglufélagsins) var pönkhljómsveit starfandi í Neskaupstað 1982-83.

SKLF var stofnuð sumarið 1982 til þess eins að taka þátt í hljómsveitakeppni í Atlavík um verslunarmannahelgina en þátttökusveitir fengu frítt inn á svæðið. Sveitin hafði nokkuð sérstaka hljóðfæraskipan en tveir trommuleikarar voru í henni, meðlimir voru trommuleikararnir Magnús Bjarkason og Kristinn Harðarson, Jón Steinþórsson (Jón Skuggi) bassaleikari og Tryggvi Þór Herbertsson (síðar þingmaður) söngvari.

SKLF lék frumsamið pönk og hluti af tónlist sveitarinnar á tónleikum var leikið af teipi en Jón Skuggi bassaleikari hafði hljóðritað margfaldaðan söng sinn á segulband sem hljómaði eins og kór (Samkór lögreglufélagsins) og var það notað sem einhvers konar intró að spilamennsku þeirra.

Í Atlavík komust þeir félagar í þriggja sveita úrslit hljómsveitakeppninnar en urðu þar að lúta í lægra haldi fyrir Lólu frá Seyðisfirði, sá góði árangur varð til þess að þeir ákváðu að halda samstarfinu áfram.

SKLF

Um veturinn bættist Ingvar Jónsson hljómborðsleikari í hópinn og vorið 1983 hélt sveitin tónleika fyrir austan, um sumarið bættist svo Skagamaðurinn og gítarleikarinn Eðvarð Lárusson í hópinn og þannig skipuð fór SKLF til Færeyja þar sem þeir léku á fimm tónleikum. Færeyingarnir voru reyndar ekki alveg tilbúnir fyrir íslenska pönkið og svo fór að sveitin þurfti að skipta yfir í gömludansa prógrammið sem var reyndar ekki til staðar hjá henni en Eðvarð sem hafði leikið á sveitaböllum lóðsaði þá félaga í gegnum valsa og þess konar tónlist.

Eftir Færeyja-ævintýrið lék sveitin á sumarhátíð UÍA fyrir austan og svo í Atlavík um verslunarmannahelgina en um haustið 1983 fóru þeir félagar suður til Reykjavíkur til tónleikahalds, léku þá tvívegis – annars vegar á Hótel Borg og hins vegar í Safarí. Fljótlega eftir það lagði SKLF upp laupana.