Afmælisbörn 9. desember 2022

Björgvin Franz Gíslason

Tónlistartengdu afmælisbörn dagsins eru fjögur talsins að þessu sinni:

Björgvin Franz Gíslason leikari er fjörutíu og fimm ára gamall í dag. Björgvin Franz var barnastjarna og vakti fyrst athygli fyrir söng sinn í Óla prik syrpu sem naut vinsælda fyrir margt löngu en hefur síðan aðallega verið tengdur leikhús- og barnatónlist, t.d. Benedikt búálfi, Stundinni okkar o.þ.h.

Hermann Gunnarsson (1946-2013) hefði einnig átt afmæli á þessum degi, þessi landsfrægi skemmtikraftur kom víða við á sínum ferli og var tónlistin einn þátturinn þar. Hann gaf út plötuna Frískur og fjörugur 1984 og söng á söngævintýraplötum Gylfa Ægissonar og plötum Áhafnarinnar á Halastjörnunni svo dæmi séu nefnd. Jólalag hans með Dengsa (Ladda) er einnig löngu orðið sígilt.

Raftónlistarmaðurinn Aðalsteinn Guðmundsson er fjörutíu og sex ára gamall í dag. Aðalsteinn hefur gefið út tugi titla í rafrænu, snældu-, geisladiska- og vefformi hér heima og erlendis undir ýmsum nöfnum, ýmist einn eða í félagi við aðra. Þeirra á meðal má nefna Plastik, Yagya, Sanasol, Cosmonut, Rhythm of snow og margt fleira.

Þá er hér að síðustu nefndur lúðrasveita- og kórstjórnandinn Hjálmar Guðnason úr Vestmannaeyjum. Hjálmar, fæddur á þessum degi árið 1940, var trompetleikari stjórnaði Lúðrasveit Vestmannaeyja og Skólalúðrasveit Vestmannaeyja um árabil en hann fékkst einnig við kennslu við tónlistarskólann. Þá var hann jafnframt kórstjóri Hvítasunnusafnaðarins í Vestmannaeyjum og lék einnig inn á fáeinar plötur. Hjálmar lést árið 2006.

Vissir þú að Jólalagakeppni Rásar 2 hefur verið haldin síðan 2003?