Afmælisbörn 29. janúar 2023

Ólafur Kolbeins

Fjögur afmælisbörn í tónlistargeiranum eru skráð hjá Glatkistunni á þessum degi:

Trommuleikarinn Ólafur Kolbeins Júlíusson fagnar í dag sextíu og sex ára afmælisdegi sínum en hann var þekktur trommuleikari einkum á áttunda áratugnum þar sem hann lék með mörgum af vinsælustu hljómsveitum landsins s.s. Paradís, Eik, Deildarbungubræðrum og Steinblómi en einnig minna þekktum sveitum eins og Sunshine, Námsfúsu Fjólu, Freeport, Goðgá, Fjörorku, Foss og fjölmörgum öðrum. Hann hefur jafnframt leikið inn á fjölda platna.

Ásgeir Guðjón Ingvarsson (1919-89) tónlistarmaður, tónskáld og textahöfundur átti afmæli á þessum degi. Hann samdi t.a.m. fjölda þekktra texta s.s. við lögin Myndin af þér, Enskur hermaður, Næturljóð og Palli Hall sem vísnahljómsveitin Hálft í hvoru gaf út á sínum tíma en Ásgeir var einmitt heiðursfélagi í Vísnavinum. Í tilefni af því að öld var liðin frá fæðingu hans 2019 var gefið út sönglaga- og textasafn hans. Þá var Ásgeir einnig stjórnandi Alþýðukórsins um tíma.

Stefán Sigurjónsson skósmiður og tónlistarmaður í Vestmannaeyjum hefði átt afmæli í dag en hann lést á síðasta ári. Stefán (f. 1954) sem var fæddur og uppalinn í Flóanum nam klarinettuleik á sínum yngri árum en rak allan sinn starfsaldur skóvinnustofu, fyrst á Selfossi en síðan í Vestmannaeyjum. Í Eyjum kenndi hann lengi við tónlistarkólann og stýrði honum einnig um tíma. Þá stjórnaði Stefán Lúðrasveit Vestmannaeyja í tvo áratugi en áður hafði hann leikið með lúðrasveitinni Svaninum.

Þá átti Jónas Björnsson þennan afmælisdag einnig en hann lést af slysförum haustið 1997. Jónas (f. 1958) starfaði sem tónlistarkennari víða um land en lék einnig með fjölmörgum hljómsveitum á trommur og blásturshljóðfæri eins og Hljómsveit Rúnars Þórs Péturssonar, Kan, Reykjavík, Head effect, Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar, Barrock, Cabaret, Fresh o.fl.

Vissir þú að hljómsveitin Póker var stofnuð gagngert til að starfa og slá í gegn á alþjóðavettvangi?