Stefán Sigurjónsson (1954-2022)

Stefán Sigurjónsson

Tónlistarmaðurinn og skósmiðurinn Stefán Sigurjónsson (eða Stebbi skó eins og hann er kallaður í Eyjum) var öflugur í tónlistarstarfinu í Vestmannaeyjum um árabil en hann stjórnaði þar Lúðrasveit Vestmannaeyja, kenndi við tónlistarskólann og stýrði honum reyndar einnig um tíma en hann vann jafnframt einnig að ýmsum félagsmálum í Eyjum.

Stefán fæddist í Sandvíkurhreppi í Árnessýslu snemma árs 1954 og bjó þar fyrstu ár ævi sinnar áður en hann fluttist með fjölskyldu sinni upp á Selfoss, þar átti hann eftir að kynnast tónlistinni og munu fyrstu kynni hans af henni hafa verið um fermingaraldur þegar stofnuð var skólalúðrasveit þar í bæ undir stjórn Ásgeirs Sigurðssonar. Stefán hóf þá nám við tónlistarskólann á Selfossi og lærði á klarinettu en síðar átti hann einnig eftir að leika á saxófón, á Selfossi byrjaði hann einnig að leika með Lúðrasveit Selfoss fljótlega og var fljótlega settur í ábyrgðarstöðu þar sem gjaldkeri sveitarinnar og þannig hófst félagsmálaferill hans.

Eftir að skyldunámi lauk á Selfossi fór Stefán til Reykjavíkur og lærði hjá Vilhjálmi Guðjónssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hann lauk námi en þar lék hann m.a. með skólahljómsveitinni og á þeim árum einnig í Lúðrasveitinni Svani. Samhliða námi í tónlistinni lauk hann námi sem skósmiður og þegar hann fluttist aftur heim á Selfoss eftir nokkurra ára námsveru á höfuðborgarsvæðinu opnaði hann skósmíðastofu á Selfossi, sem var reyndar vanhugsað því þá voru þegar tveir skósmiðir í bænum og gengu viðskiptin því treglega.

Stefán Sigurjónsson

Það varð þá fljótlega úr að Stefáni var ráðlagt að flytjast til Vestmannaeyja og opna skóvinnustofu þar en í Eyjum var þá að hefjast uppbygging eftir gosið 1973. Í Vestmannaeyjum byrjaði hann strax að leika með Lúðrasveit Vestmannaeyja haustið 1975 og ári síðar tók hann við stjórn sveitarinnar og stjórnaði henni einn vetur í eins konar afleysingu. Næstu árin starfaði Stefán með lúðrasveitinni í Eyjum, rak þar einnig skósmíðaverkstæði og hóf fljótlega einnig að kenna við tónlistarskólann. Hann gegndi um tíma formennsku í lúðrasveitinni og árið 1988 tók hann aftur við stjórn sveitarinnar og stýrði henni allt til vorsins 2007. Á þeim árum lék hann einnig með sveitinni, stjórnaði léttsveit sveitarinnar einnig og kom fram á ýmsum tónlistartengdum uppákomum sem hljóðfæraleikari og stjórnandi, samhliða því gegndi hann hálfri stöðu tónlistarkennara en frá árinu 2005 var hann ráðinn aðstoðar skólastjóri tónlistarskólans og tók svo við skólastjórastöðunni við skólann árið 2011. Ástæða þess að Stefán hætti að stjórna lúðrasveitinni var sú að um aldamótin hafði hann greinst með Parkinson veiki og það var farið að há honum við stjórnunina en hann átti mun hægara með að stjórna tónlistarskólanum, þeirri stöðu gegndi hann til vorsins 2017 en þá varð hann að hætta vegna veikinda sinna, Stefán flutti um það leyti til höfuðborgarsvæðisins og bjó þar uns hann lést haustið 2022.

Stefán Sigurjónsson hafði auk starfa sinna við lúðrasveitirnar í Vestmannaeyjum og Selfossi gegnt ýmsum stöðum í félagsmálum sveitanna sem fyrr er nefnt en hann var einnig t.d. í stjórn SÍL (Sambandi íslenskra lúðraveita) og virkur í starfi Rotary í Vestmannaeyjum. Hann var ennfremur sæmdur gullmerki Lúðrasveitar Vestmannaeyja fyrir framlag sitt til tónlistarinnar.