Stefán Helgason (1951-)

Stefán Helgason

Húsvíkingurinn Stefán Helgason fékk sinn skerf af fimmtán mínútna frægð er hann sigraði hæfileikakeppni í sjónvarpsþættinum Óskastundinni sem Stöð 2 stóð fyrir árið 1992 en þar lék hann listivel á munnhörpu. Í kjölfarið var hann eitthvað fenginn til að skemmta og kom m.a. fram í þættinum Þeytingi í Ríkissjónvarpinu árið 1995 og lék listir sínar á hljóðfærið.

Stefán Helgason er fæddur 1951 og er reyndar mun þekktari nyrðra sem trommuleikari en hann lék með fjölda hljómsveita á Húsavík og nágrenni á árum áður, hér má nefna sveitir eins og Hauka, Fimm, Svarta túlipanann, Stuðla, Íris og Combo 5 en einnig starfaði hann nokkuð með Leikfélagi Húsavíkur, bæði sem tónlistarmaður og áhugaleikari.

Stefán hefur búið í Sviss um árabil.