Stefán Lyngdal (1913-62)

Stefán Lyngdal

Stefán Lyngdal var kunnur harmonikkuleikari hér á árum áður en hann var einnig sá sem setti á fót hljóðfæraverslunina Rín sem er reyndar enn starfandi.

Stefán Sigurður Elíasson Lyngdal (oft nefndur Stebbi í Rín) var fæddur haustið 1913 en litlar sem engar heimildir er að finna um ævi hans framan af, hann var um tvítugt þegar hann fór að vekja athygli fyrir kunnáttu sína á harmonikku en hann lék á dansleikjum á höfuðborgarsvæðinu og einnig eitthvað á landsbyggðinni, bæði einn síns liðs og í samstarfi við aðra – þannig var hann t.a.m. í hljómsveit sem kallaðist Kátir voru karlar sem starfaði um tveggja ára skeið og var eins konar húshljómsveit á efri hæð Oddfellow hússins í miðbæ Reykjavíkur. Stefán var reyndar mjög fjölhæfur tónlistarmaður og mun hafa leikið á flest hljóðfæri. Hann var jafnframt einn af stofnendum Félags harmonikuleikara í Reykjavík sem voru hagsmunasamtök og starfaði á árunum 1936-48.

Stefán sem var kaupmannssonur hóf að selja harmonikkur þegar hann var um þrítugt í húsnæði föður síns að Njálsgötu 23 og um það leyti stofnaði hann ásamt Herdísi eiginkonu sinni verslun sem þá hlaut nafnið Rín og seldi hún hljóðfæri, raftæki og annan varning. Fljótlega tóku hljóðfærin yfir og hljóðfæraverslunin Rín varð þekkt og er reyndar enn.

Stefán Lyngdal

Stefán varð ekki langlífur, lést í Kaupmannahöfn haustið 1962 rétt tæplega fimmtugur að aldri eftir að hafa átt í veikindum um tíma og tók fjölskyldan við rekstri verslunarinnar við andlát hans, Magnús Eiríksson sem síðar giftist Elsu dóttur þeirra hjóna stjórnaði henni lengst af á Frakkastígnum en nýir eigendur hafa tekið við keflinu af fjölskyldunni og rekur verslunina nú undir nafninu Hljóð-X-Rín við Grensásveg.