Toxic (1964-67)

Toxic

Hljómsveitin Toxic var ein fjölmargra bítlasveita sem spruttu fram á sjónarsviðið um og eftir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Sveitin var á meðal þeirra vinsælustu en galt þess að gefa ekki út plötu enda flutti hún einungis tónlist eftir aðra.

Toxic var stofnuð í Réttarholtsskóla og varð fljótlega mjög virk, það liðu ekki margir mánuðir áður en sveitin var farin að leika á skemmtistöðum Reykjavíkur og þótti hafa einkar líflega sviðsframkomu og jafnvel ögrandi, einkum eftir að Jónas R. Jónsson söngvari gekk til liðs við sveitina 1966 þegar hann hætti í 5 pence. Hápunktur Toxic var væntanlega þegar hún var ein þeirra sveita sem hitaði upp fyrir Brian Poole and the Tremeloes þegar sú sveit kom hingað til lands til tónleikahalds.

Erfitt er að henda reiður á hverjir skipuðu Toxic á hverjum tíma, sveitina gætu í upphafi hafa skipað Arnar Sigurbjörnsson gítarleikari, Jón Kristinn Cortes bassaleikari, Rafn Haraldsson trommuleikari og Guðmundur Karlsson orgelleikari, líklega kom Ragnar Jörundsson söngvari fljótlega inn í hana sem og Jakob Halldórsson gítarleikari. Ekki er þó öruggt að þeir hafi allir verið í sveitinni samtímis. Jónas tók að öllum líkindum við af Ragnari. Aðrir sem komu við sögu sveitarinnar voru Sigurður Árnason bassaleikari og Hafsteinn Guðmundsson, einnig hefur Sigurður Lyngdal verið nefndur í þessu samhengi. Allar upplýsingar um þessa meðlimi og aðra sem einnig gætu hafa verið í Toxic má senda Glatkistunni.

Toxic 1967

Toxic hætti störfum haustið 1967, í kjölfarið stofnuðu þrír þeirra, Jónas, Arnar og Rafn hljómsveitina Flowers ásamt fleirum en hún varð ein af allra vinsælustu hljómsveitum áratugarins. Þeir þrír áttu ennfremur eftir að koma við sögu íslensks popps næstu árin s.s. í hljómsveitum eins og Brimkló, Haukum, Náttúru og Ævintýri. Sömu sögu má segja um flesta hina meðlimi Toxic, þeir komu víða við í tónlistinni eftir að sögu sveitarinnar lauk.

Toxic hefur verið endurreist í nokkur skipti, t.a.m. 1977, 1987 þegar sýningin Leitin að týndu kynslóðinni var sett á svið í Hollywood, 1992 og 2006.

Sem fyrr segir sendi sveitin aldrei frá sér efni á plötum.