Toy machine (1998-2001)

Toy machine 1999

Toy machine frá Akureyri var um margt merkileg hljómsveit, hún var fyrst norðlenskra sveita til að eltast við meikdrauma erlendis og tilurð hennar átti stóran þátt í að tónlistarhátíðin Iceland Airwaves var sett á laggirnar.

Félagarnir sem mynduðu Toy machine höfðu verið saman í hljómsveitum um tveggja ára skeið og kallað sig Gimp þegar þeir skiptu um nafn vorið 1998 og tóku upp nafnið Toy machine. Þá voru meðlimir hennar Atli Hergeirsson bassaleikari, Baldvin Zophoniasson trommuleikari, Kristján Örnólfsson gítarleikari og Jens Ólafsson söngvari, fljótlega bættist í hópinn Árni Elliot Swinford söngvari og plötusnúður.

Tónlist sveitarinnar var eins konar jaðarrokk, blanda rokks og rapps sem vakti nógu mikla athygli til að fulltrúar erlendra plötuútgefenda fóru norður til að hlýða á sveitina (og fleiri sveitir), þeir áttu síðar í viðræðum við Elektra og líklega fleiri útgáfufyrirtæki í framhaldið.

Í kjölfarið var farið í frekari kynningu á sveitinni og var m.a. sett á laggirnar eins konar tónlistarhátíð í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli haustið 1999 til að vekja athygli á nokkrum íslenskum hljómsveitum auk Toy machine, einnig komu þar fram erlend nöfn. Sagan segir að Guðmundur Cesar Magnússon annar umboðsmaður sveitarinnar hafi átt stóran þátt í að hátíðin varð að veruleika en hún hlaut nafnið Iceland Airwaves og hefur síðan vaxið og dafnað eins og kunnugt er.

Toy machine

Toy machine fór eftir Airwaves hátíðina til Bandaríkjanna til að kynna sig, og þar lék sveitin á einhverjum tónleikum. Þar og á Airwaves dreifðu meðlimir sveitarinnar líklega tveggja laga demóplötu (Toymachine / Fallen) en annars finnast engar upplýsingar um þá útgáfu.

Sveitin átti tvö lög á safnplötunni Msk sem kom út 1999 (Happy when you cry / I still don‘t know you) og einnig í kvikmyndinni Óskabörn þjóðarinnar (Be like me) árið 2000 en ekkert annað kom út með sveitinni, hún hafði áður landað samningi við Skífuna hér heima án þess að plata liti dagsins ljós.

Lítið fór fyrir Toy machine í kjölfar Airwaves og Ameríkufararinnar, sveitin lék á tónlistarhátíðinni Reykjavik music festival sumarið 2000 og eitthvað í lok sama árs en síðan ekkert fyrr en haustið 2001 og það varð allt og sumt. Einhver ágreiningur hafði orðið innan og í tengslum við sveitina og því fór draumurinn um alþjóðlega frægð fyrir lítið.

Toy machine átti kombakk árið 2015 og hélt þá tónleika en þá var sveitin án Árna Elliot sem bjó erlendis.

Meðlimir sveitarinnar fóru hver í sína áttina og voru lítillega viðloðandi tónlist í kjölfarið nema Jens sem vakti síðar athygli sem söngvari hljómsveitarinnar Brain police og síðar Hot damn o.fl. Baldvin trommuleikari fór hins vegar í kvikmyndabransann og varð síðar þekktur sem Baldvin Z.

Efni á plötum