Náttúra (1969-73)

Náttúra 1969

Upphaflega útgáfa Náttúru

Hljómsveitin Náttúra starfaði á hippa- og progrokktímum um og eftir 1970, var meðal vinsælustu og metnaðarfyllstu sveita þess tíma og gaf út eina plötu sem telst í dag meðal gersema íslenskrar tónlistarsögu.

Um það leyti sem Náttúra var stofnuð var mikil gróska og vakning í íslensku rokklífi, frumbítlið hafi kvatt og þróaðri tilraunir með formið urðu æ algengari. Vorið 1969 hefur sérstaklega verið nefnt í þessu samhengi en þá komu bæði Trúbrot og Náttúra fram á sjónarsviðið.

Stofnmeðlimir Náttúru voru Rafn Haraldsson trommuleikari og Jónas R. Jónsson söngvari og flautuleikari sem komu úr Flowers, Sigurður Árnason bassaleikari (Sálin) og Björgvin Gíslason gítarleikari (Pops).

Sveitin kom fyrst fram í júlí 1969 og lék þá mestmegnis blúsrokk eftir Led Zeppelin, Who, Jethro Tull og þess háttar sveitir en fljótlega fór að bera meira á frumsömdum lagasmíðum. Þeir vöktu þó mikla athygli fyrir flutning á broti úr söngleiknum Tommy sem þeir fluttu m.a. í sjónvarpsþætti.

Í lok sumar bárust þær fréttir að tveggja laga plata með sveitinni væri væntanleg og væri að mestu búið að taka upp lag (allt nema sönginn) fyrir safnplötuna Pop festival 70, sem þá var væntanleg.

Náttúra 1970

Náttúra 1970

Í ársbyrjun 1970 hafði Náttúra gert plötusamning við Fálkann en annað útgáfufyrirtæki hafði einnig falast eftir samningi við sveitina sem þarna var komin í hóp fremstu hljómsveita landsins.

Fljótlega tók sveitin upp frumsömdu lögin Blekking og Þú hverfa munt mér en þau lög komu aldrei út af einhverjum ástæðum, e.t.v. vegna þess að Jónas söngvari hætti óvænt í sveitinni snemma um vorið. Þá hafði hann skömmu áður verið kjörinn Poppstjarna ársins 1970 og því kom kom það poppheiminum í opna skjöldu þegar hann tilkynnti um brotthvarfið, að sögn til að sinna herrafataverslun sem hann var þá í þann mund að setja á stofn. Jónas var þó engan veginn hættur í tónlist enda hafði hann þá nýverið skrifað undir plötuútgáfusamning um sólóefni.

Þegar safnplatan Pop festival 70 kom loksins út eftir nokkrar tafir var framlag þeirra Náttúru-liða hvergi að finna heldur lag með Jónasi einum, þá hafði þeim félögum ekki fundist lagið nógu vel unnið og úr varð að Jónas söng lag við erlendan undirleik. Þar sem umslag plötunnar hafði verið prentað löngu áður en upplagið kom til landsins var nafn sveitarinnar á því.

Í stað Jónasar kom söngvarinn Pétur W. Kristjánsson en sá hafði áður verið í hljómsveitinni Pops líkt og Björgvin gítarleikari. Á sama tíma bættist Sigurður Rúnar Jónsson orgelleikari í hópinn, aðaleinkenni hans sem hljóðfæraleikari sneri fyrst og fremst að fjölbreytni en hann spilaði á flest hljóðfæri og var fiðla meðal þeirra. Sigurður Rúnar hafði þarna verið í hljómsveit föður síns, Hljómsveit Jóns Sigurðssonar, sem lék tónlist í anda gömlu dansanna og var þetta í fyrsta skipti sem hann var viðloðandi popp- eða rokksveit.

Náttúra spilaði á dansleikjum um sumarið og þrátt fyrir þungt og fremur tormelt progprógrammið naut sveitin mikilla vinsælda, um haustið bárust þær fréttir að hún væri farin að æfa efni á heila breiðskífu – allt frumsamið efni.

Náttúra (2)

Náttúra

Um það leyti stóð til að Náttúra færi í tónleikaferð til Færeyja en Pétur átti einmitt rætur sínar að rekja þangað, úr því ferðalagi varð ekki að sinni en hins vegar kom upp annað og stærra verkefni í árslok 1970 fyrir sveitina þegar henni bauðst að leika undir í söngleiknum Hárinu sem til stóð að setja á svið í Kópavogsbíói, síðar var reyndar ákveðið að verkið yrði sýnt í skemmtistaðnum Glaumbæ við Fríkirkjuveg. Fljótlega eftir áramótin 1970-71 gekk Ólafur Garðarsson trommuleikari í sveitina í stað Rafns en hann hafði þá verið í Trúbrot.

Náttúra var meira í fréttum næstu vikurnar þegar í ljós kom sveitin hefði ekki fengið samþykki Ríkissjónvarpsins til að leika verk eftir Grieg og Bach í sjónvarpsþætti sem þeim hafði boðist til að taka þátt í, úr þessu urðu heilmikil blaðaskrif einkum eftir að sveitin boðaði til blaðamannafundar og lék efnið þar.

Mönnum varð einkum tíðrætt um völd þau sem Jón Þórarinsson tónskáld hefði innan stofnunarinnar en hann var þá tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins og virðist einn hafa ráðið um það hvort sveitin mætti leika efnið. Þess má geta að Náttúra breytti í engu útsetningum á tónlistinni heldur lék hana á rafmagnshljóðfæri sem líklega fór fyrir brjóstið á tónlistarstjóranum. Svo langt gekk málið að undirskriftir hundruða menntaskólanema voru lagðar fyrir tónlistarstjórann sem gaf sig þó hvergi. Ekkert varð því úr gerð sjónvarpsþáttarins.

Náttúra var þó hvergi nærri hætt að flytja verk eftir tónskáld og samhliða tónlistarflutningi í Hárinu í Glaumbæ hófst samstarf við Leif Þórarinsson tónskáld í tilraunum sveitarinnar með hipparokksformið. Sveitin flutti verk eftir og með Leifi á skemmtun tengdri náttúruvernd í febrúar 1971 sem og fyrrgreindu verkin eftir Grieg og Bach, og nokkru síðar fór Leifur með þeim félögum til Færeyja og flutti efnið þar. Ennfremur tók sveitin upp tónverk eftir annað ungt tónskáld, Atla Heimi Sveinsson.

Um haustið 1971 bárust þær fréttir að sveitin hefði fengið send samningsdrög um plötuútgáfu frá CBS og Polydor, þeir félagar skoðuðu málin eitthvað frekar en aldrei varð neitt úr þeim fyrirætlunum þó.

Hræringar og mannabreytingar einkenndu Náttúru nú um tíma, talað var um að Ólafur trommari væri á útleið og að svo virtist sem Timi Donald úr bresku sveitinni White trash tæki sæti hans. Sigurður Rúnar var þá búinn að ákveða að hætta í sveitinni þótt ekki yrði það fyrr en eftir ármótin 1971-72, nýr meðlimur bættist hins vegar í hópinn þegar Áskell Másson slagverksleikari gekk til liðs við Náttúru.

Náttúra ÓlafurG ÁskellM BjörgvinG SigurðurÁ JóhannG Shady

Náttúra 1972

Náttúra fór í stutta pásu í desember 1971 á meðan þessi mál voru að komast á hreint en reiðarslagið dundi yfir þegar stórbruni varð í Glaumbæ þann 4. desember og öll hljóðfæri sveitarinnar eyðilögðust. Tryggingamál voru í ólestri og líklegast fékk sveitin tjónið aldrei bætt.

Sveitin hætti þó ekki störfum við þetta áfall, Sigurður Rúnar hætti um áramótin eins og ákveðið hafði verið en auk þess yfirgaf Pétur söngvari sveitina og stofnaði Svanfríði í kjölfarið. Í stað Péturs kom Jóhann G. Jóhannsson sem bæði söngvari og gítarleikari en hann hafði þá starfað með sveitum eins og Óðmönnum (hinni fyrri) og Töturum. Ólafur Garðarsson hélt áfram sem trommuleikari Náttúru þrátt fyrir sögusagnir um annað.

Öllum að óvörum birtist nýr meðlimur með Náttúru þegar sveitin kom aftur fram á sjónarsviðið í febrúar 1972 eftir pásuna en það var söngkonan Shady Owens. Þá voru meðlimir sveitarinnar Björgvin Gíslason, Sigurður Árnason, Ólafur Garðarsson, Jóhann G. Jóhannsson, Áskell Másson og Shady Owens, og var nú altalað meðal poppskríbenta blaðanna að sveitin væri ásamt Svanfríði líklega best mannaða og fremsta hljómsveit Íslands og þótt víðar væri leitað.

Um sumarið lék sveitin á böllum og stöku tónleikum, og æfði samhliða því frumsamið efni á væntanlega plötu sem síðan var tekin upp um haustið 1972 í London, Jóhann G. var þá hættur í Náttúru og Áskell hafði þá líka yfirgefið sveitina. Karl J. Sighvatsson orgelleikari kom lítillega við sögu á upptökunum og gæti hafa leikið um skamman tíma með sveitinni um veturinn, Finnur Torfi Stefánsson gítarleikari jafnvel líka og sagan segir að Tómas M. Tómasson hafi leyst Sigurð bassaleikara af um tíma.

Menn voru fljótir að gera hlutina á þessum tímum og fyrir jólin 1972 kom platan Magic key út en sveitin annaðist sjálf útgáfuþáttinn. Platan hlaut ágætar viðtökur, fékk þokkalega dóma í Tímanum og ágæta í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar, Vikunni og Morgunblaðinu, en seldist fremur illa og varð nokkurt tap á útgáfunni.

Náttúra Vikan 1973

Náttúra á miðjuopnu Vikunnar 1973

Að einhverju leyti má líklega kenna um þungri tónlistinni en um það leyti sem platan kom loksins út var proggið og hipparokkið að víkja nokkuð fyrir léttari tónlist sem oft var kölluð kúlutyggjótónlist og hefði líklega verið skilgreind síðar sem gleðipopp. Þetta voru sveitir eins og Lónlí blú bojs og Haukur hér heima á Íslandi. Margir hafa í seinni tíð talað um að Náttúra hafi hreinlega gefið Magic key of seint út. Platan hefur þó á síðari árum gengið kaupum og sölum manna á milli fyrir háar upphæðir enda eintök af henni sjaldséð.

Eftir reynsluna úr Hárinu þótti sjálfsagt og eðlilegt að leita til Náttúru þegar setja átti upp rokkóperuna Jesus Christ Superstar í Austurbæjarbíói en verkið hafði þá notið mikilla vinsælda eftir að það var fyrst sett á svið 1970. Hér heima gekk það undir nafninu Jesús guð dýrðlingur og var frumsýnt snemma árs 1973, aukamaður með sveitinni í uppfærslunni var Pétur Pétursson píanóleikari.

Náttúra lék undir í sýningunni þar til yfir lauk í lok maí en í kjölfarið spurðist lítið til sveitarinnar. Það var síðan nokkuð óvænt um sumarið að ný hljómsveit var kynnt til sögunnar, Pelican, en Björgvin Gíslason og Pétur Kristjáns (fyrrverandi söngvari sveitarinnar) voru þar fremstir í flokki. Sú sveit átti eftir að verða framvarðarsveit íslensks tónlistarlífs næstu árin en þar með var sögu Náttúru um leið lokið.

Sveitin átti þó eftir að koma saman ári síðar í eitt skipti og spila opinberlega. Og reyndar aftur á afmælistónleikum Félags íslenskra hljómlistarmanna árið 1982 en þeir tónleikar voru teknir upp og efni af þeim gefið út á plötu, þar kemur Náttúra við sögu í einu lagi skipuð þeim Sigurði bassaleikara, Sigurði Rúnari hljómborðsleikara, Pétri söngvara, Ólafi trommuleikara og Björgvini gítarleikara.

Plata Náttúru, Magic key hefir aldrei verið gefin út á geislaplötu- eða stafrænu formi, og hefur því verið ófáanleg lengi. Og svo ótrúlegt sem það kann að hljóma hefur lag með sveitinni aldrei verið gefið út á safnplötum í seinni tíð.

Efni á plötum