Tónar [1] (1962-67)

Tónar 1965

Saga hljómsveitarinnar Tóna er ærið flókin og margbrotin enda koma þar við sögu breyttar áherslur í tónlistarstefnu í takt við tíðarandann, auk fjöldi meðlima en tíðar mannabreytingar í sveitinni voru með ólíkindum á ekki lengri tíma, um tuttugu manns komu þar við með einum eða öðrum hætti.

Hljómsveitin var stofnuð í júní 1962 og var framan af svokölluð gítarsveit, lék þá tónlist í anda The Shadows. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu fyrstu útgáfu sveitarinnar en Haraldur Arngrímsson var þó að líkindum fyrsti bassaleikari hennar, Garðar Guðmundsson söngvari kom fljótlega inn í hana. Einnig mun verið gítarleikari að nafni Sigurgeir [?] í sveitinni en ekki er ljóst á hvaða tímapunkti það var, allar upplýsingar um það væru vel þegnar.

Sumarið 1963 birtist sveitin fyrst í fjölmiðlum og var nokkuð áberandi þar enda var hún þá orðin fastráðin í Lídó og var auglýst grimmt. Um haustið voru eftirfarandi í Tónum, Birgir Kjartansson gítarleikari, Sigþór Skaftason gítarleikari sem þá var tiltölulega nýgenginn til liðs við hljómsveitina (hafði þá tekið við af gítarleikara sem hugsanlega hét Ragnar [?]), Jón Þór Hannesson bassaleikari, Pétur Gunnarsson trommuleikari og Garðar Guðmundsson söngvari.

Á þeim tíma gekk sveitin gjarnan undir nafninu Tónar og Garðar og var fyrirmynd hennar The Shadows með Cliff Richard í fararbroddi. Garðars naut þó ekki lengi við því þegar ósætti kom upp í sveitinni var hann látinn taka pokann sinn, hann poppaði þó skömmu síðar í nýrri sveit – Garðari og Gosum.

Tónar

Í kjölfarið urðu breytingar reglulega á skipan Tóna samhliða því sem tíðarandinn breyttist, bítlatónlist tók nú við af Shadows áhrifum um tíma áður en blúsrokk í anda Rolling stones varð ofan á í lagavali sveitarinnar. Ýmsir hafa haldið fram að Tónar hafi verið allra fyrsta starfandi bítlasveitin á Íslandi, komið á undan Hljómum og öðrum slíkum sveitum.

Sumarið 1964 hafði sveitin verið í nokkurra vikna pásu en um haustið voru í sveitinni Birgir, Jón Þór og Sigþór en í stað Péturs hafði ungur og efnilegur trymbill, Gunnar Jökull Hákonarson tekið við kjuðunum, hann var yngstur þeirra félaga og var þegar farinn að vekja athygli fyrir hæfileika sína á bak við settið. Aukinheldur hafði Guðni Pálsson tekið við söngnum en hann spilaði jafnframt á saxófón.

Fleiri breytingar urðu á skipan sveitarinnar um vorið 1965 þegar Birgir gítarleikari hætti og Finnur Torfi Stefánsson kom í hans stað, hann var þó fljótlega látinn fara en birtist skömmu síðar í hljómsveitinni Óðmönnum.

Enn frekar breytingar urðu á meðlimaskipan Tóna um sumarið, Sigurður Árnason tók sæti Jóns Þórs á bassanum og Hannes Jón Hannesson tók við af Finni, en Þórhallur Már Sigmundsson kom inn sem söngvari, þá var Jökullinn ennþá á trommunum en þar með var enginn eftir úr upprunalegu útgáfu sveitarinnar. Sigþór virðist hafa komið inn aftur fyrir Hannes Jón og þannig starfaði sveitin um tíma sem kvartett.

Um haustið 1965 bárust þær fréttir í fjölmiðlum að sveitin væri á leið til London og myndi spila þar í nokkrum klúbbum, eitthvað fór minna fyrir slíkum fréttum eftir því sem á leið og aldrei varð úr þeirri ferð, hins vegar fóru þeir Sigurður bassaleikari og Gunnar Jökull trommuleikari til borgarinnar vorið eftir (1966), um sumarið gengu Karl J. Sighvatsson orgelleikari og enski söngvarinn Terry Patrick til liðs við Tóna. Svo virðist sem Þórhallur hafi tekið við bassaleikarahlutverkinu þar til Sigurður kom aftur síðsumars en Aðalsteinn Rúnar Emilsson trommuleikari kom í stað Gunnars Jökuls sem kom ekki aftur til baka frá Bretlandi, þar hóf hann að starfa með bresku sveitinni Syn og bjó ytra um tíma áður en hann gekk til liðs við Hljóma, Trúbrot, Flowers og fleiri þekktari sveitir. Jón Kristinn Gunnarsson gítarleikari kom einnig inn í sveitina um vorið. Tónar höfðu verið spilað rokk í anda Rolling stones eins og áður hefur verið komið inn á en með tilkomu Karls orgelleikara þróaðist tónlist sveitarinnar líklega meira út í hipparokk.

Tónar

Þannig skipuð starfaði sveitin næstu mánuðinu en í febrúar 1967 má segja að ákveðinn vendipunktur hafi orðið í sögu Tóna þegar sveitin hélt fræga tónleika í Austurbæjarbíói og hafði sér til fulltingis nokkrar aðrar sveitir s.s. Óðmenn, Hljóma, Toxic og Pops. Eins konar múgæsing myndaðist meðal nokkur hundruð ungra tónleikagesta þegar meðlimir Toxic ögruðu þeim með því að sparka hluta af trommusetti sínu af sviðinu, og í kjölfarið þegar lokasveitin, Tónar, sté á svið varð mikill æsingur meðal áhorfenda og fóru þá löggæslumenn á staðnum á taugum og kölluðu út aukalið, það varð til að tónleikunum var slitið og unglingahópurinn gerði aðsúg að lögreglunni.

Tónar voru að einhverju leyti gerðir ábyrgir fyrir þessari uppákomu og lítið fór fyrir henni í spilamennskunni næstu vikurnar og segja má að sveitin hafi ekki borist sitt barr eftir tónleikara í Austurbæjarbíói. Ekki bætti úr skák að breski söngvarinn Terry Patrick, sem hafði annast peningauppgjör fyrir sveitina, stakk af með hluta ágóðans.

Guðmundur Emilsson tók við orgelleiknum af Karli og líklega kom Ólafur Garðarsson trommuleikari líka inn í hana, fljótlega eftir það var ný hljómsveit stofnuð upp úr Tónum með enn frekari mannabreytingum og var sú sveit kölluð Sálin.

Meðan Tónar störfuðu var sveitin án nokkurs vafa meðal vinsælustu hljómsveita landsins þrátt fyrir að gefa aldrei út lög á plötum. Það segir sitt um vinsældir hennar að sjálfir Hljómar voru meðal sveita sem „hituðu upp“ fyrir hana á tónleikunum í Austurbæjarbíói.