Afmælisbörn 5. febrúar 2023

Friðjón Þórðarson

Fjögur afmælisbörn koma við sögu í dag:

Halldór Kristinsson (Dóri Tempó) á sjötíu og þriggja ára afmæli í dag. Halldór var áberandi í íslensku tónlistarlífi í kringum 1970, vakti reyndar fyrst athygli nokkrum árum fyrr með unglingahljómsveitinni Tempó, fyrst sem trommuleikari og síðan bassaleikari, en varð þekktastur með Þremur á palli sem naut fádæma vinsælda. Þá gaf hann út barnaplötu sem varð feikivinsæld einnig. Halldór söng inn á fjölda hljómplatna á sínum tíma en minna hefur spurst til hans hin síðari ár enda hefur hann búið erlendis.

Myndlistarmaðurinn og ljóðskáldið Kristján Frímann Kristjánsson er sjötíu og þriggja ára gamall í dag. Kristján Frímann er mikill tónlistaráhugamaður og plötusafnari og hefur ritað mikið um tónlist, hann ber m.a. ábyrgð á mörgu því sem finna má um íslenska tónlist á Wikipedia. Hann hefur jafnframt hannað fjölmörg plötuumslög og meðal þeirra eru plötur með Megasi & Spilverki þjóðanna, Björgvini Gíslasyni og Mannakornum.

Dalamaðurinn Friðjón Þórðarson fyrrum alþingismaður og ráðherra (fæddur 1923) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann var einn meðlima söngkvartettsins Leikbræðra sem gerðu garðinn frægan hér á árum áður. Leikbræður gáfu út nokkrar plötur, þar af eina stóra með eldri upptökum en hún kom út 1977. Friðjón lést 2009.

Gísli Magnússon píanóleikari hefði átt þennan afmælisdag en hann lést árið 2001. Gísli (fæddur 1929) nam píanóleik í Sviss og Ítalíu en starfaði lengst af hér heima sem tónlistarkennari og -skólastjóri auk þess að leika á fjölda tónleikum ýmist einn eða með öðrum. Fjölmargar plötur komu út með píanóleik Gísla einum en jafnframt lék hann einnig á fjölda annarra platna á ferli sínum.

Vissir þú að tónlistarfólkið Ásgerður, Kristinn, Guðlaugur og Móeiður Júníusbörn eru systkini?