Gísli Magnússon [1] (1929-2001)

Gísli Magnússon

Gísli Magnússon var þekktur píanóleikari, lék inn á fjölda platna auk þess að leika á tónleikum hér heima og víða um lönd, hann var einnig tónlistarkennari og skólastjóri um langt skeið.

Gísli Magnússon fæddist árið 1929 austur á Eskifirði en fluttist til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni um tíu ára aldur. Fljótlega eftir það hóf hann píanónám, fyrst hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni og síðan Árna Kristánssyni sem báðir voru þekktir píanóleikarar og störfuðu við Tónlistarskólann í Reykjavík, sem þá hafði verið settur á laggirnar um tíu árum fyrr.

Eftir nám hér heima sem hann lauk 1949 fór hann til Sviss þar sem hann lauk einleikaraprófi, og síðan til framhaldsnáms á Ítalíu sem hann lauk 1951. Á Ítalíu-árum sínum hljóðritaði hann plötu (líklega 1955) sem síðan kom út á vegum Fálkans árið 1956 og varð þar með fyrsta íslenska breiðskífan og er söguleg í því samhengi. Platan hafði að geyma fjögur íslensk píanóverk (eftir Pál Ísólfsson og Sveinbjörn Sveinbjörnsson) og enska svítu eftir Bach. Platan mun hafa verið gefin út hér á landi sem erlendis og fékk einhverja spilun hjá BBC í Bretlandi. Á árunum 1959-64 komu ennfremur út þrjár smáskífur á vegum Fálkans með píanóleik Gísla en þær innihéldu verk eftir íslensk og erlend tónskáld.

Gísli hafði leikið á einhverjum tónleikum hér heima í fríum á meðan hann var við nám erlendis en eftir að hann var alkominn hingað hélt hann sína fyrstu sjálfstæðu tónleika við góðan orðstír árið 1951. Og í framhaldi af því var hann fremur virkur í tónleikahaldi ýmist einn eða með öðrum, hann lék margsinnis einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum og oft við frumflutning verka sem sum hver voru sérstaklega samin fyrir hann, hann lék jafnframt oft með kammersveitum og var t.a.m. semballeikari kammerhópsins Musica de camera. Þá kom hann einnig fram á tónleikum Musica nova. Gísli lék margoft í útvarpssal og í sjónvarpinu þegar það kom til sögunnar, og mun nokkuð vera til af óútgefnu efni flutt af honum í safni Ríkisútvarpsins.

Gísli lék jafnframt margoft á erlendum vettvangi ýmist einn eða ásamt öðrum tónlistarmönnum s.s. Halldóri Haraldssyni píanóleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara. Rómað er samstarf Gísla við Halldór og gáfu þeir út plötuna Tvö píanó árið 1979, önnur plata kom út með þeim saman árið 1999 undir sama titli en aukin að efni. Sama má segja um samstarf hans við Gunnar Kvaran en tvær plötur komu út með þeim saman, sú fyrri 1990 en sú síðari 1995, báðar innihéldu plöturnar efni úr ýmsum áttum. Áður hafði Gísli sent frá sér plötu með píanóverkum eftir Beethoven og Händel (árið 1979).

Gísli við flygilinn

Eftir nám sitt í Sviss og á Ítalíu hafði Gísli komið heim sem fyrr segir, og starfaði hann við kennslu og píanóleik um árabil en árið 1969 hóf hann störf sem píanókennari við tónlistarskólann í Garðahreppi (síðar Garðabæ) þar sem hann tók síðar við starfi skólastjóra árið 1984 og gegndi því til áramóta 1999-2000 þegar hann lét af störfum vegna aldurs. Gísli lést árið 2001 sjötíu og tveggja ára gamall en hann þá átt í veikindum um nokkurt skeið. Stofnaður hafði þá verið sjóður til að gefa út gamlar upptökur með honum og komu þær út á tveggja laga plötu árið 2004, á vegum Smekkleysu-útgáfunnar. Sú útgáfa innihélt eitthvað af áður útgefnu efni en einnig píanóverk úr ýmsum áttum úr fórum Ríkisútvarpsins. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Gísli hafði auk ofangreindra platna leikið inn á nokkrar plötur í viðbót, og meðal þeirra eru hér nefndar plata Önnu Þórhallsdóttur, Íslensk sönglög (1958), plata Árna Jónssonar, Einsöngslög (sem kom út 1999 en hafði að geyma gamlar upptökur), plata með söng Hjálmtýs E. Hjálmtýssonar (1980) en hún bar nafn söngvarans, þá lék hann á plötu tileinkaðri tónsmíðum Gunnars Thoroddsen (1983) og hér er einnig nefnd plata Stúlknakórs Gagnfræðiskólans á Selfossi (1968) en þar var Gísli meðal undirleikara. Að síðustu er hér nefnd platan Elektrónísk stúdía (2000) sem hafði að geyma tónlist Magnúsar Blöndal Johannssonar frá Musica nova árunum o.fl. en þar leikur Gísli Fjórar abstraktsjónir.

Gísli vann að ýmsum félagsmálum meðal tónlistarmanna, hann var í stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna (FÍT) á árunum 1965-68, stjórn félags tónlistarkennara 1978-81 og sat í stjórn Íslandsdeildar Evrópusambands píanókennara (EPTA) á árunum 1979-95.

Efni á plötum