Gísli Rúnar Jónsson (1953-2020)

Gísli Rúnar Jónsson

Leikarinn og þúsundþjalasmiðurinn Gísli Rúnar Jónsson kom víða við í íslensku listalífi og þar reis hæst ferill hans sem skemmtikraftur, leikari, þýðandi, höfundur bundins og óbundins máls og leikstjóri, hér fyrrum kom út fjöldi platna þar sem skemmtikrafturinn Gísli Rúnar kom við sögu í stærri hlutverkum og nutu þær feikimikilla vinsælda en þar lék hann og söng efni af ýmsum toga. Síðustu áratugina dró hann sig meðvitað út úr sviðsljósinu en starfaði þeim mun meira á bak við tjöldin ef svo mætti segja.

Gísli Rúnar Jónsson fæddist í Reykjavík árið 1953 og hneigðist hugur hans snemma til leiklistarinnar. Hann fór í leiklistarskóla Ævars Kvaran og var um það leyti (um 1970) farinn að koma við sögu í útvarpsleikritum, Gísli Rúnar fór einn vetur norður til Akureyrar og starfaði þar með Leikfélagi Akureyrar, lék þar í fyrsta sinni á sviði m.a. í Línu Langsokk, málaði leiktjöld o.fl. en kom suður og hóf þá að leika með áhugaleikhópum syðra, m.a. hópum sem hann átti sjálfur þátt í að stofna.

Það var svo haustið 1972 sem Gísli Rúnar sló í gegn, það var ásamt Júlíusi Brjánssyni í innslögum í sjónvarpsþáttum um tvo vitgranna verkamenn í kaffipásum en þeir félagar fengu síðar nafnið Kaffibrúsakarlarnir. Þeir Gísli Rúnar og Júlíus fóru fljótlega að skemmta úti í bæ og víðar með prógramm sitt og urðu á skömmum tíma afar vinsælir fyrir grín sitt sem var nýtt af nálinni og ferskt á allan hátt, Svavar Gests hjá SG-hljómplötum var fljótur að sjá möguleika á plötusölu í tengslum við þá Kaffibrúsakarla og gaf árið 1973 út breiðskífu með þeim sem varð mjög vinsæl og hafa brandarar tvíeykisins fyrir löngu öðlast sígildi. Platan var endurútgefin á geislaplötu árið 1992. Þeir félagar lögðu Kaffibrúsakarlana til hliðar 1974 enda höfðu þeir sjálfir önnur plön og þeir rétt rúmlega tvítugir, Gísli Rúnar hóf nám í nýstofnuðum Leiklistarskóla Íslands um haustið 1974 en var vikið úr skólanum eftir árs nám og hóf þá að skemmta á nýjan leik m.a. með bróður Júlíusar, Baldri Brjánssyni töframanni en þeir blönduðu saman gríni og töfrabrögðum í atriði sínu við miklar vinsældir áhorfenda.

Gísli Rúnar um tvítugt

Um þetta leyti, haustið 1975 kom nýr karakter Gísla Rúnars til sögunnar en hann átti þá stóran þátt í að skapa brúðukarakterinn Palla eða Pál Vilhjálmsson sem varð nú órjúfanlegur hluti Stundarinnar okkar í Sjónvarpinu. Palli var eins konar hægri hönd Sirrýjar (Sigríðar Margrétar Sigurðardóttur), sagði brandara og þess háttar og sló samstundis í gegn bæði meðal barna og fullorðinna en hann þótti með eindæmum vinsæll, það var Guðrún Helgadóttir rithöfundur sem skrifaði handritið að Palla en Gísli Rúnar hafði leyfi til að skreyta og bæta við texta hennar. Palli varð þannig þjóðþekktur karakter veturinn 1975-76 en um vorið dró til tíðinda þegar Gísli Rúnar óskaði eftir launahækkun með tilliti til vinsælda brúðunnar og meiri vinnu en hann hafði reiknað með í upphafi. Þegar óskum hans var hafnað fór Palli í verkfall og kom ekki fram í síðustu þáttum Stundarinnar okkar um vorið svo úr urðu heilmikil blaðaskrif þar sem forráðamenn Sjónvarpsins, Gísli Rúnar og Guðrún komu við sögu meðal annarra. Það fór svo að samningurinn var ekki endurnýjaður við Palla sem birtist samt sem áður aftur í þættinum um haustið með nýja rödd en féll þar þegar í ónáð áhorfenda, tilraun Sjónvarpsins með nýja brúðu, „frænku Palla“ sem hét Begga féll ennfremur í grýttan jarðveg því allir vildu fá „gamla“ Palla aftur. Gísli Rúnar sá reyndar ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann kæmi hvergi nærri Palla þar sem svo margir hefðu kvartað við hann um „hvað mér farist illa úr hendi hlutverk Páls í „Stundinni okkar“ eftir að útsetningar hófust að nýju í haust“ svo gripið sé niður í yfirlýsinguna, og stráði þar með salti í sár forráðamanna Sjónvarpsins.

Gísli Rúnar hafði um tíma starfað nokkuð með þeim bræðrum Halla og Ladda og sumarið 1976 hafði komið út plata með þeim þremur sem hét Látum sem ekkert C. Segja má að sú plata marki tímamót í útgáfu grínplatna á Íslandi, fram að því hafði grínefni á plötum mestmegnis verið í formi talaðs máls og eftirherma auk grínefnis sem Ómar Ragnarsson hafði sungið inn á fjölda platna, en hér kvað við nýjan tón þar sem grínlög í bland við stutt grínatriði milli laga réðu ríkjum. Efnið var í anda Spike Jones en sniðið að því gríni sem þá var einmitt að ryðja sér til rúms með Kaffibrúsakörlunum og Halla og Ladda sem þá höfðu einnig slegið í gegn í sjónvarpi. Látum sem ekkert C varð mjög vinsæl og lög eins og Guðfinna, Tygg-igg-úmmí, Ég er í svaka stuði og reyndar flest laganna fengu mikla spilun í útvarpi og hafa heyrst reglulega allt til dagsins í dag, þeir þremenningar fóru síðsumars hringinn í kringum landið ásamt hljómsveitinni Ðe Lónlí blúbojs og skemmtu við miklar vinsældir. Efni með þeim félögum kom einnig út á jólaplötunni Jólastjörnur (1977) þar sem þeir sprelluðu í þekktum jólalögum eins og í Jólasyrpu Gláms og Skráms, og lögunum Lepp, Skrepp og Leiðindaskjóðu og Sveinn minn jóla.

Á áttunda áratugnum

En Palla-málinu var síður en svo lokið því Gísli Rúnar í samráði við Svavar Gests hafði ákveðið að gefa út plötu með Palla. Þeir gættu þess þó að nafnið Páll Vilhjálmsson eða Palli kæmi hvergi við sögu á plötunni og var hún gefin út í nafni Gísla Rúnars undir titlinum Algjör sveppur: Dagur í lífi stráks, á bakhlið umslagsins stóð ennfremur Gísli Rúnar Jónsson flytur eigið efni (sem var í formi erlendra laga við texta Gísla Rúnars auk talaðs máls á milli laga). Ekki fór þó á milli mála að Palli úr Stundinni okkar væri þarna á ferðinni enda var röddin sú sama og á framhlið plötuumslagsins var mynd af Palla á bak við Gísla Rúnari. Eins og við mátti búast brugðust forráðamenn Sjónvarpsins ókvæða við með yfirlýsingu þess efnis að Gísla Rúnari og SG-hljómplötum væri óheimilt að nota Palla án leyfis, Svavar Gests svaraði því þannig í mótyfirlýsingu að nafn Palla kæmi þarna hvergi við sögu og ekki væri bannað samkvæmt lögum að hafa úrklippu úr blaði (mynd af Palla úr Vísi) á plötuumslagi. Platan var tekin upp í Tóntækni, hljóðveri Svavars Gests og sá Sigurður Árnason um upptökurnar ásamt Sigurði Rúnari Jónssyni (Didda fiðlu) sem jafnframt útsetti og stjórnaði undirleik hljómsveitar. Fjölmörg lög urðu vinsæl og má þar nefna Vorið er komið, Sveita- hveiti- geit, Afmæli og Í strætó eða Allir út að aftan, Algjör sveppur seldist ennfremur vel enda hafði verið gert ráð fyrir því þegar platan kom út því fyrsta upplag hennar var sex þúsund eintak sem þótti gríðarlega mikið. Hún fékk jafnframt góða dóma í Dagblaðinu og Æskunni. Ágreiningurinn við Sjónvarpið um Palla virðist ekki hafa rist dýpra en svo að í Jólastundinni okkar í lok sama árs birtust þeir félagar Halli, Laddi og Gísli Rúnar og sprelluðu þar, og þess má geta að haustið 1977 kom út bók um Palla eftir Guðrúnu Helgadóttur hjá bókaforlaginu Iðunni, hún hét Páll Vilhjálmsson og naut mikilla vinsælda eins og plata Gísla Rúnars. Þegar platan Algjör sveppur var endurútgefin árið 2000 voru lagatitlarnir eilítið frábrugðnir upprunulegu titlunum auk þess sem þeir voru töluvert fleiri enda var þá búið að setja titla á talaða málið líka.

Gísli Rúnar var um þetta leyti orðinn einn vinsælasti skemmtikraftur landsins og hafði yfirið nóg að gera í bransanum m.a. með þeim bræðrum Halla og Ladda en einnig Baldri Brjánssyni, Jörundi Guðmundssyni eftirhermu og fleirum, hann gaf sér þó tíma til að vinna að  næstu plötu en mikil vinna í tengslum við heimildavinnu og úrvinnslu gagna beið hans í þeim efnum. Þetta var þematengd plata um stríðsárin á Íslandi þar sem komið yrði á flesta fleti hernámsins og áranna eftir það, hernámið sjálft, veru hernámsliðsins og síðan Bandaríkjamanna, Bretavinnuna, ástandið og fleira. Magnús Ingimarsson var fenginn til að útsetja tónlistina sem öll var erlend og frá fjórða og fimmta áratugnum en við texta Gísla Rúnars sem brá sér í líki tuga karaktera með söng og leik á plöatnni. Platan fékk titilinn Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka, og var gefin út af SG-hljómplötum haustið 1977, hún hlaut mjög góða dóma í Þjóðviljanum, Æskunni og Fylki en slaka í Tímanum. Einkum var mikil vinna lögð í umslag plötunnar og þar er að finna fjöldann allan af myndum þar sem Gísli Rúnar (og fleiri) hefur brugðið sér í ýmis hlutverk tengd tíðarandanum. Þess má til gamans geta að verðandi eiginkona Gísla Rúnars, Edda Björgvinsdóttir kom þarna lítillega við sögu á plötunni sem og fósturdóttir hans, Eva Dögg Sigurgeirsdóttir sem margir þekkja í dag vegna starfa hennar við tísku- og markaðsmál.

Ein af fjölmörgum myndum sem birtust á umslagi plötunnar Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka

Þau Gísli og Edda Björgvins voru um þetta leyti farin að starfa saman í leikhúsinu en einnig í grínhópnum Úllen dúllen doff sem framleiddi grínþætti fyrir Ríkisútvarpið en uppistaðan í þeim þáttum voru stutt grínatriði í bland við tónlist, í hópnum voru auk þeirra beggja Sigurður Sigurjónsson, Randver Þorláksson, Hanna María Karlsdóttir og Jónas Jónasson auk fjölda gestaleikara. Þættirnir slógu í gegn eins og svo margt sem Gísli Rúnar hafði komið að og svo fór að plata með úrvali efnisins var gefið út á plötu 1980 sem seldist fljótlega upp, varð ófáanleg með öllu um árabil en var endurútgefin 1992. Hópurinn starfaði í nokkur ár og kom fram við miklar vinsældir á hvers kyns skemmtunum s.s. árshátíðum o.þ.h. og lagði grunninn að því gríni sem síðar sást hjá Spaugstofunni og viðlíka hópum enda nátengdur þeim. Úllen dúllen doff hópurinn stóð einnig að plötu sem innihélt leikritið Kisubörnin kátu (1983) sem Gísli Rúnar bjó til flutnings.

Um það leyti hafði hann nokkuð dregið sig í hlé frá sviðsljósinu enda hafði hann þá verið um nokkurra ára skeið meðal fremstu grínskemmtikrafta landsins og skemmt ótal sinnum á sviði, í útvarpi og sjónvarpi auk ofangreindra hljómplatna. Hann hafði þá einnig komið við sögu á plötunni Hattur og Fattur komnir á kreik sem var eins konar söngleikur á plötu og var eftir Ólaf Hauk Símonarson. Þeir Hattur og Fattur höfðu nokkrum árum fyrr verið fastur liður í Stundinni okkar og höfðu þeir Kjartan Ragnarsson og Árni Blandon leikið þá félaga en efnið hafði þá verið tekið út af dagskránni vegna ágreinings Ólafs Hauks við Jón Þórarinsson dagskrárstjóra Sjónvarpsins sem var sá sami og Gísli Rúnar hafði átt í útistöðum við um svipað leyti, Gísli Rúnar hafði á plötunni tekið við hlutverki Hatts sem Kjartan lék áður.

Þótt Gísli Rúnar hefði þarna að sumu leyti stigið af grínsviðinu var hann síður en svo hættur í leikhúsinu en áherslurnar urðu einfaldlega bara aðrar. Hann fór í framhaldsnám í leikhúsfræðum til Bretlands þar sem hann nam við Drama studio og áhrifa þess náms átti síðar eftir að setja nokkuð merki á störf hans. Upp frá þessu lágu leikhússtörf hans mun meira við leikstjórn, þýðingar, ritstörf s.s. við talað mál og einnig söngtexta, og leik og þá ekki einungis grínleik, segja má að hann hafi starfað við nánast flest öll leikhús starfandi á höfuðborgarsvæðinu og víðar síðan, bæði atvinnu- og áhugaleikhús. Leið hans á leiksviði hefur jafnframt legið í kabaretts- og revíusýningum s.s. Söguspaug ´84, Gullárin með KK o.fl. Söng, textasmíðar og þýðingar Gísla Rúnars má jafnframt heyra á fjölda platna sem gefnar hafa verið út tengdar leikhúsinu s.s. úr Litlu hryllingsbúðinni, Grease, Hedwig, Á köldum klaka, Honk: ljóti andarunginn o.fl. Þá má söng hans heyra í laginu Húsamús á safnplötunni Eins og þú ert, sem varð nokkuð vinsælt. Árið 2009 kom svo út platan Í túrett og moll þar sem Stefán Karl Stefánsson söng lög við texta Gísla Rúnars. Þess má einnig geta að árið 2010 var sett á svið hjá Leikfélagi Akureyrar leikritið Algjör Sveppi: dagur í lífi stráks, sem var byggt á plötu Gísla Rúnars en plata kom einnig út með tónlistinni úr því.

Gísli Rúnar Jónsson

Störf Gísla Rúnars lágu einnig í sjónvarpi og útvarpi, hann leikstýrði og lék t.a.m. í fjölda áramótaskaupa og grínþáttum s.s. Föstum liðum eins og venjulega, Heilsubælinu í Gervabæli, þáttunum um Bibbu á Brávallagötunni, Búbbunum og fleirum sem fyrirtæki þeirra Eddu og fleiri, Gríniðjan framleiddi. Leik Gísla Rúnars má sjá í kvikmyndum eins og í myndunum um Stellu (Stella í orlofi og Stella í framboði), Magnúsi, Stuttum frakka og Hvítum mávum. Þá leikstýrði hann fjölda sjónvarpsauglýsinga, stjórnaði skemmtiþáttum og margt fleira.

Gísli Rúnar fékkst nokkuð við annars konar ritstörf hin síðari ár og hér eru nefndar bækurnar Bó & co … með íslenskum texta (2001), Ég drepst þar sem mér sýnist: Gísli Rúnar Jónsson og Grínarar hringsviðsins segja sögur úr sviðsljósinu… og skugga þess (2011) og Laddi: Þróunarsaga mannsins sem kom okkur til að hlæja (2016).

Minna fór fyrir Gísla Rúnari Jónssyni síðustu árin enda hafði hann verið með annan fótinn í Bandaríkjunum, hér má þó nefna að Kaffibrúsakarlarnir voru endurvaktir 2002 í tilefni af þrjátíu ára starfsafmæli með nokkrum skemmtunum og útgáfu nýrrar plötu en þeir höfðu síðan þá birst á nokkurra ára fresti, plata með þeim var einnig gefin út 2011. Eins og nærri má geta er fjölda laga í flutningi Gísla Rúnars að finna á safnplötum sem komið hafa út hérlendis, ýmist með Halla og Ladda, í hlutverki Páls Vilhjálmssonar og með Úllen dúllen doff hópnum.

Gísli Rúnar lést sumarið 2020 aðeins sextíu og sjö ára gamall.

Efni á plötum