
Óskar Norðmann
Glatkistan hefur upplýsingar um tvö afmælisbörn í dag:
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir tónlistar- og fjöllistakona er fjörutíu og fjögurra ára gömul í dag. Hún hefur haslað sér völl sem myndlistamaður m.a. með myndasögum sínum (Lóaboratoríum) en er þekktari í tónlistarbransanum sem söngkona og annar stofnandi hljómsveitarinnar FM Belfast, sem hefur gefið út nokkrar breiðskífur. Þá hefur Lóa Hlín sungið á plötum hljómsveita og tónlistarmanna eins og Hairdoctor og Dr. Gunna, og unnið við hönnun hljómplötuumslaga.
Óskar Norðmann einsöngvari og stórkaupmaður (1902-71) átti afmæli á þessum febrúar degi en hann var einna fyrstur íslenskra einsöngvara til að starfa á erlendri grundu. Hann söng einsöng á plötum með Karlakór KFUM og einnig á nokkrum öðrum 78 snúninga plötum. Söng hans má heyra á safnplötunni Síðasta lag fyrir fréttir (1993). Óskar var fyrsti formaður SÍK (Sambands íslenskra karlakóra) en annars er lítið um hann vitað.
Vissir þú að þegar Pétur Kristjánson var rekinn úr Pelican stofnaði hann Paradís sem lék opinberlega aðeins mánuði síðar?