Óskar Norðmann (1902-71)

Óskar Norðmann

Óskar Norðmann (Jónsson) var fyrst og fremst þekktur stórkaupmaður en hann var einnig söngvari og var nokkuð áberandi í sönglífi Reykvíkinga á þriðja áratug síðustu aldar.

Óskar fæddist 1902, þótti efnilegur íþróttamaður og lék m.a. knattspyrnu með Víkingi, hann varð síðar m.a.s. formaður félagsins. Hann þótti góður söngvari og þegar hann gekk til liðs við Karlakór K.F.U.M. varð hann fljótt einsöngvari með kórnum en hann hafði baritón rödd.

Óskar hlaut litla söngmenntun en mun hafa lært aðeins hjá Ara Johnson (Ara M. Jónssyni) söngkennara í Kaupmannahöfn en þar var hann í námi. Hann hélt margsinnis tónleika ásamt öðrum söngvurum, oftast þó með Símoni Þórðarsyni (Símoni í Hól, föður Guðrúnar Á. Símonar). Hann mun einnig hafa sungið undir kvikmyndasýningum en þær voru þá ennþá þöglar.

Sumarið 1930 söng Óskar einsöng með hinum svokallaða Alþingiskór á Alþingishátíðinni á Þingvöllum og um sama leyti kom út 78 snúninga plata (Bergljót / Þú ein) með söng hans á vegum Fálkans, líklega var það Emil Thoroddsen sem lék undir á píanóið á upptökunum. Af einhverjum ástæðum var platan tekin úr umferð fljótlega og því er önnur plata til (með söng Péturs Á. Jónssonar óperusöngvara) með sama útgáfunúmer (DI 1039), vegna þessa eru afar fá eintök til af plötu Óskars.

Um sama leyti kom út önnur plata en á henni syngja þeir Óskar, Sigurður Markan og Hreinn Pálsson, Óskar og Hreinn syngja þar lagið Sólseturljóð við undirleik Emils Thoroddsen.

Í þessari sömu upptöku- og útgáfuhrinu 1930 má heyra einsöng Óskars á tveimur plötum með Karlakór K.F.U.M.

Lagið Bergljót kom löngu síðar (1993) út á safnplötunni Síðasta lag fyrir fréttir en hún var gefin út af Ríkisútvarpinu, líklegast er um sömu útgáfu lagsins að ræða og kom út 1930. Á þeirri plötu er einnig að finna lagið Sólseturljóð af hinni plötunni.

Óskar hætti að mestu að syngja opinberlega eftir 1935 en kom víða við í söng- og tónlistarmálum þjóðarinnar, hann var í stjórn Sambands íslenskra karlakóra og var reyndar formaður þess um tíma, en hann var einnig formaður Karlakórsins Fóstbræðra síðar, sem stofnaður var upp úr K.F.U.M. kórnum.

En fyrst og fremst var Óskar Norðmann stórkaupmaður, hann hafði orðið hluthafi í fyrirtæki Jóns Þorlákssonar þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur 1923 og hét fyrirtækið eftir það J. Þorláksson & Norðmann og varð leiðandi afl í byggingavöruverslun hér á landi.

Óskar Norðmann lést haustið 1971 eftir nokkur veikindi.

Efni á plötum