Afmælisbörn 10. febrúar 2023

Þorkell Símonarson

Tvö afmælisbörn koma við sögu í dag:

Jóhann Bachmann Ólafsson (Hanni Bach) trommuleikari frá Selfossi er fjörutíu og sjö ára gamall á þessum degi. Hanni hefur leikið með mörgum hljómsveitum í gegnum tíðina en þekktastar þeirra eru Skítamórall og Írafár. Aðrar sveitir eru til dæmis Loðbítlar, Poppins flýgur og Boogie knights svo fáeinar séu tíndar til.

Þá á Þorkell (Sigurmon) Símonarson eða Keli vert í Langaholti eins og hann er betur þekktur, fimmtíu og fjögurra ára afmæli í dag. Þorkell var í hljómsveitunum Sveitasveitinni Hundslappadrífu og Stormi í aðsigi sem gáfu út nokkrar plötur fyrir nokkrum árum en hann hefur einnig komið lítillega við sögu á öðrum plötum. Þess má og geta að hann samdi textann við Eurovision lagið Tangó sem Heiða Eiríksdóttir söng við nokkrar vinsældir.

Vissir þú að leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson var söngvari og gítarleikari í hljómsveitinni Stórbruna sem keppti í Músíktilraunum 1997?