Afmælisbörn 9. febrúar 2023

Egill Ólafsson

Og enn eru það afmælisbörn dagsins á skrá Glatkistunnar:

Egill Ólafsson tónlistarmaður er sjötugur í dag. Hann er einn af þekktustu söngvurum þjóðarinnar og hefur sungið með mörgum af vinsælustu hljómsveitunum, þar má nefna Spilverk þjóðanna, Stuðmenn og Þursaflokkinn en hann hefur einnig sungið með minna þekktum sveitum eins og 3to1, Tamlasveitinni, Scream og Andrew svo fáein dæmi séu tekin. Egill hefur gefið út sólóplötur, þar af eina nú nýlega, sungið á óteljandi plötum annarra listamanna en hefur nú dregið sig í hlé vegna veikinda.

Rapparinn Opee (Ólafur Páll Torfason) er þrjátíu og níu ára gamall, hann var einn af Quarashi liðunum auk þess að starfrækja rappdúetinn O.N.E. ásamt Eternity (Eilífi Erni Þrastarsyni) en hefur aukinheldur unnið með mörgum öðrum röppurum eins og títt er um þá.

Haukur Ingibergsson er sjötíu og sex ára í dag. Haukur, sem upphaflega kemur frá Akureyri starfaði á árum áður með hljómveitum eins og Lubbum, Echo, Engum, Taxmönnum og Upplyftingu sem var skólahljómsveit Samvinnuskólans á Bifröst en hann var þar skólastjóri. Haukur er höfundur slagarans 17. júní sem Dúmbó og Steini gerðu vinsælt forðum en hann hefur gefið út plötu ásamt textahöfundi lagsins, Bjartmari Hannessyni.

Tónlistarmaðurinn Auður (Auðunn Lúthersson) er þrítugur í dag. Hann hefur verið mjög áberandi í tónlistarsenunni undanfarið m.a. með stórsmellina Freðinn og Enginn eins og þú en hann á að baki tvær sólóplötur og hefur einnig unnið með öðru tónlistarfólki eins og GDRN og Emmsjé Gauta. Auðunn hefur verið í fjölda hljómsveita og þeirra á meðal má nefna C A L I C U T, Tuttugu, 3000 miles & above, Sound of seclusion og Ragnarök.

Árni Rúnar Hlöðversson er fjörutíu og eins árs í dag. Hann er einnig þekktur sem Árni plúseinn og hefur leikið með fjölda þekktra hljómsveita s.s. FM Belfast, Motion boys, Hairdoctor, Prins póló, Milkywhale og GusGus, hann komst reyndar í fréttirnar á sínum tíma þegar hann lék með sjö hljómsveitum á sömu Iceland Airwaves hátíðinni. Árni Rúnar hefur ennfremur gefið út plötu undir aukasjálfinu Hungry and the burger.

Jón Sen fiðluleikari (1924-2007) hefði einnig átt þennan afmælisdag, hann lærði á fiðlu í Bretlandi og lék með Íslensk-ameríska kvartettnum víða um lönd. Jón, sem var fæddur í Kína, var einnig í Útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Íslands, var m.a. konsertmeistari um tíma. Hann kenndi á fiðlu við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Að síðustu er hér nefnd Sigríður Gröndal sópran söngkona sem átti afmæli þennan dag en hún lést árið 2015 aðeins fimmtíu og níu ára gömul. Sigríður (fædd 1956) nam sönglistina hér heima og í Hollandi, söng nokkur óperu- og einsöngshlutverk á óperusýningum og tónleikum en einnig með kórum, þá fékkst hún eitthvað við söngkennslu. Hún kom jafnframt við sögu á nokkrum plötum á ferli sínum.

Vissir þú að trommuleikari Stuðmanna, Ásgeir Óskarsson hefur gefið fjölda sólóplatna?