
Sigríður Gröndal á forsíðu Vikunnar
Nafn Sigríðar Gröndal sópran söngkonu er e.t.v. ekki meðal þeirra allra þekktustu í óperu- og einsöngvaraheiminum hér á landi en hún vakti einna mest athygli er hún keppti í Cardiff söngvakeppninni svokölluðu.
Sigríður Gröndal fæddist haustið 1956 í Reykjavík og ólst upp á höfuðborgarsvæðinu, hún lærði á píanó sem barn en hóf söngnám hjá Elísabetu Erlingsdóttur áður en hún tók námið fastari tökum hjá Sieglinde Kahmann, en hún hafði sem barn sungið í barnakórum. Eftir burtfarar-og einsöngvarapróf hér heima við Tónlistarskólann í Reykjavík fór hún til Hollands í framhaldsnám í söng og kom hingað að því námi loknu 1988, og starfaði hér heima í stað þess að freista gæfunnar erlendis.
Hér á Íslandi hafði hún fyrst vakið athygli vorið 1983 er hún var meðal sex ungra einsöngvara (af þrettán) sem kepptu um sigur í Söngvakeppni Sjónvarpsins eins og það var kallað en sigurvegari í þeirri keppni hlaut þátttökurétt í lokakeppni sem haldin var í Cardiff í Wales undir nafninu BBC Cardiff singer of the world, sú keppni var þá haldin í fyrsta sinn en hefur verið haldin síðan. Sigríður gerði sér lítið fyrir og sigraði undankeppnina hér heima en Elín Ósk Óskarsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson höfnuðu í öðru og þriðja sæti, keppnin í Cardiff var ógnarsterk og komst Sigríður ekki í sex manna úrslit en mátti vel við una og vakti þar verðskuldaða athygli sem og hér heima fyrir framlag sitt enda hafði hún feikinóg að gera í kjölfar keppninnar hér heima.
Sigríður hafði sungið sitt fyrsta óperuhlutverk í Töfraflautunni 1983 og að námi loknu í Holllandi þar sem hún söng eitthvað bæði á tónleikum og óperuuppfærslum bættust fjölmörg slík sönghlutverk við ferilsskrána hér heima, hún söng t.a.m. í tónleika- og óperuuppfærslum á Leðurblökunni, Carmina Burana, Don Giovanni, Brúðkaupi Fígarós og Systur Angeliku. Þá söng hún jafnframt margsinnis einsöng í stærri verkum með hljómsveitum og kórum s.s. í kirkjuóperunni Abraham og Ísak, í Sálumessu Mozart (ásamt Mótettukórnum og kammersveit) og svo á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og fleiri stærri hljómsveitum.

Sigríður Gröndal
Sigríður söng margoft einsöng á kórtónleikum ýmissa kóra s.s. Kórs Menntaskólans í Kópavogi, Kór Landakirkju í Vestmannaeyjum, Mótettukórnum og Kór Langholtskirkju en hún söng einsöng á plötu síðast talda kórsins og var jafnframt meðlimur hans, hún söng reyndar einnig í Þjóðleikhúskórnum um tíma á níunda áratugnum. Sigríður söng á fjölmörgum einsöngstónleikum á söngferli sínum, m.a. í sumartónleikaröð í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, á tónleikum tengt Listahátíð í Hafnarfirði og Reykjavík og ljóðatónleikaröð í Gerðubergi en þeir tónleikar voru hljóðritaðir ásamt fleiri slíkum og gefnir út á plötu undir nafninu Á Ljóðatónleikum Gerðubergs (1990). Söng hennar má einnig heyra á plötum eins og Bláir eru dalir þínir, sem hafði að geyma tónlist eftir Skúla Halldórsson tónskáld og Blítt lét sú veröld: Sigfús Halldórsson 75 ára.
Sigríði varð ljóst að hún gæti ekki lifað á söngstarfinu einvörðungu hér á landi og hafði því bókhald að aðalstarfi en fékkst einnig við forfallakennslu, söngurinn varð því smám saman að víkja þótt hún hætti reyndar aldrei að koma fram og syngja, hún söng þó áfram í kórum – Kammerkórnum Ópus 12 og Kór Hjallakirkju sem hún sá jafnframt um að raddþjálfa.
Sigríður lést haustið 2015 en hún hafði þá átt í margra ára baráttu við krabbamein, hún var þá aðeins fimmtíu og níu ára gömul.