Súkkat (1990-2009)

Súkkat 1993

Dúettinn Súkkat var töluvert í umræðunni á síðasta áratug liðinnar aldar en hann þótti þá koma með ferskt innlegg í annars fremur bragðdaufa tónlistarflóruna, þrjár plötur komu út með Súkkat og fjölmörg lög náðu vinsældum.

Þeir Súkkat-liðar Hafþór Ólafsson og Gunnar Örn Jónsson munu hafa kynnst í námi sínu sem matreiðslumenn en þeir voru oft kynntir sem kokkarnir í Súkkat. Þeir hófu að vinna tónlist saman þegar þeir leigðu saman árið 1988, Hafþór samdi þá ljóð sem Gunnar Örn bjó til einföld lög við og plokkaði undir á gítar.

Það var aldrei ætlun þeirra að bera þessar lagasmíðar á borð almennings en haustið 1990 komu þeir fyrst fram í einkasamkvæmum undir nafninu Súkkat og var gerður góður rómur að minimalískum lagasmíðum þeirra og textum fullum af húmor og kaldhæðni sem margir hverjir þóttu bera keim af ljóðum Megasar enda sagði Hafþór síðar í blaðaviðtali að hann hlustaði heilmikið á Megas. Þótt þeir félagar væru nýgræðingar í tónlistinni voru þeir síður en svo nein unglömb því báðir voru þeir á fertugs aldri.

Árið 1992 urðu þáttaskil hjá þeim Súkkat-liðum þegar Hafþór, sem þá var kokkur á Hótel Búðum á Snæfellsnesi hitti Kristján Kristjánsson (KK) sem hreifst af ljóðum hans og svo fór að Hafþór tók lagið með KK-bandinu þar á hótelinu, lagið Kúkurinn í lauginni sem síðar varð fyrsti smellur Súkkats.  Í framhaldinu af því fór boltinn að rúlla og þeir félagar Hafþór og Gunnar Örn komu fram á óháðu listahátíðinni Loftárás á Seyðisfjörð um sumarið og vöktu þar töluverða athygli. Hafþór starfaði sem fyrr segir á Búðum um sumarið en Gunnar Örn var þá í Reykjavík þannig að um frekara tónleikahald var ekki að ræða alveg strax, þeir komu þó fram sem gestir á tónleikum KK-bands um haustið í Borgarleikhúsinu en platan Bein leið var þá nýkomin út – þar fluttu þeir m.a. slagarann um kúkinn í lauginni. Súkkat sem þá voru auðvitað alveg óþekktir auglýstu framlag sitt með smáauglýsingu í DV.

Það var svo eftir áramótin 1992-93 sem Súkkat hóf að troða upp og vakti hvarvetna athygli, fljótlega var þeim boðið að koma fram í sjónvarpsþáttunum Litrófi og Á tali hjá Hemma Gunn þannig að Kúkurinn í lauginni var orðinn þekktur nokkuð áður en lagið kom út á plötu. Svo virðist reyndar sem nokkur lög hafi verið hljóðrituð með þeim félögum um vorið og gefin út í litlu upplagi á kassettu en upplýsingar um þá útgáfu eru af mjög skornum skammti.

Um sumarið 1993 kom dúettinn aftur fram á óháðu listahátíðinni (Ólétt ´93) og eins fór Gunnar Örn vestur á Snæfellsnes og tók lagið með Hafþóri þar sem hann starfaði sem fyrr á sumrin, einnig fóru þeir félagar norður á Akureyri og um haustið kom Súkkat aftur fram á Hótel Búðum og spilaði fyrir fjölda manns þegar Snæfellsnesið fylltist af fólki sem ætlaði sér að líta væntanlegar geimverur augum – sem reyndar aldrei komu af einhverjum ókunnum ástæðum.

En boltinn var byrjaður að rúlla og um haustið kom út plata sem bar heitið Dúettinn Súkkat og hafði að geyma fjórtán lög frá ýmsum tímum – þrátt fyrir að Gunnar Örn semdi lögin og Hafþór textana höfðu þeir þann háttinn á að báðir voru skrifaðir fyrir lögum og textum, Örn Karlsson átti þó einn texta. Lokalag plötunnar, fyrrnefnt Kúkur í lauginni var flutt við undirleik KK-bands en að langmestu leyti sá Gunnar Örn um allan hljóðfæraleik, útgáfufyrirtæki KK – Bein leið gaf plötuna út. Lagið um kúkinn í lauginni komst á Íslenska listann og einnig náði lagið Jóhann nokkrum vinsældum enda kvað við nokkuð nýjan tón þarna að mati tónlistaráhugafólk einkum hvað textagerð snerti, enda hlaut platan frábæra dóma í Morgunblaðinu, mjög góða í DV og Degi og þokkalega í Pressunni.

Súkkat

Súkkat lék töluvert í kringum jólin í kjölfar útgáfu plötunnar til að fylgja henni eftir og var m.a. með útgáfutónleika í Borgarleikhúsinu og á nýju ári (1994) voru þeir að leika töluvert áfram, til að mynda á þorrablóti fyrir félag Íslendinga í Þýskalandi. Í mars komu þeir Súkkatar í fyrsta sinn fram ásamt Megasi (Magnúsi Þór Jónssyni) en það var upphaf af löngu samstarfi þeirra. Þeir Hafþór og Gunnar Örn hlutu jafnframt tilnefningu sem textahöfundar ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum en þeir voru báðir skrifaðir fyrir textunum sem fyrr segir.

Þegar nær dró vori fóru þeir félagar að koma fram á Hótel Búðum um það leyti sem þar opnaði og má segja að samasem merki hafi verið milli Súkkat og Hótel Búða hjá mörgum enda starfaði Hafþór þar lengi sem kokkur yfir sumartímann, og Gunnar Örn reyndar einnig á stundum. Súkkat lék því nokkuð á tónleikum um sumarið en minna fór fyrir þeim um haustið og framan af árinu 1995 má segja að þeir hafi að nokkru leyti dregið sig í hlé, dúettinn kom þó fram í nokkur skipti í framhaldsskólum ásamt Megasi og um það leyti hófu þeir að kalla sig Megasukk undir því samstarfi en þeir komu fram í fyrsta sinn undir því nafni á Ísafirði.

Með vorinu 1995 varð Súkkat aftur meira áberandi í spilamennskunni og um sumarið spurðist út að ný plata kæmi út með tvíeykinu um haustið, þá var einnig gerður sjónvarpsþáttur með þeim svo segja má að þeir hafi á þessum tímapunkti verið orðnir vel kynntir landsmönnum. Platan kom út fyrir jólin undir nafninu Fjap og aftur var það Bein leið sem gaf plötuna út. Forskriftin var sú sama, söngur Hafþórs og gítarundirleikur Gunnars Arnar en nú var tónlistin lítið eitt skreytt með slagverki og flautu. Lögin Vont en það venst, Rauðar, rauðar rúsínur og Reykjavíkurpakk nutu nokkurra vinsælda og frasinn „vont en það venst“ varð að eins konar tískufrasa sem enn heyrist notaður,  myndband við lagið vakti þá einnig athygli. Textarnir voru flestir eftir Hafþór en einnig áttu Megas og fyrrnefndur Örn Karlsson texta á plötunni. Fjap hlaut ágæta dóma í Helgarpóstinum, Degi og DV og mjög góða í Morgunblaðinu og dúettinn festi sig nokkuð í sessi í íslensku tónlistarlífi með þessari afurð sinni.

Á nýju ári 1996 hlaut Súkkat aftur tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem textahöfundur ársins og reyndar kom dúettinn fram á þeirri hátíð, en hlaut þó ekki verðlaunin. Þeir fóru nú í enn frekari mæli að koma fram með Megasi undir nafninu Megasukk og yfirleitt var sá háttur hafði á að þeir komu fram í sitt hvoru lagi, Súkkat og Megas og síðan einnig saman undir Megasukk-nafninu. Sumarið 1996 kom Súkkat þó fremur lítið fram en þó eitthvað þar sem þeir félagar skemmtu ásamt Rúnari Marvinssyni (öðrum matreiðslumanni) og Gísla Víkingssyni undir nafninu Puntstráin – sú hljómsveit átti eins og Megasukk eftir að koma fram margsinnis á næstu árum. Þetta sumar átti Súkkat einnig lag á safnplötunni Ávextir: Blandaðir flytjendur, en þar var á ferð lagið Vont en það venst. Þegar haustaði var sett á svið sýning á vegum Kaffileikhússins í Hlaðvarpanum þar sem Súkkat kom við sögu og gekk sú sýning í nokkur skipti.

Eftir áramótin 1996-97 fór lítið fyrir Súkkati framan af nýju ári, þeir voru ásamt nokkrum öðrum flytjendum á SÁÁ styrktartónleikum í Borgarleikhúsinu um vorið en að öðru leyti höfðu þeir sig lítið í frammi, það var helst að þeir kæmu fram með Megasi og m.a. á Menningarnótt en þegar haustaði aftur voru þeir virkir um tíma, dúettinn kom þó nokkuð fram úti á landi, t.d. á Akureyri og Flateyri og var aðsóknin æði misjöfn – t.d. voru aðeins fjórir áhorfendur á tónleikum þeirra í Grindavík, þar af voru tveir sem höfðu komið með þeim félögum en á tónleikum á Tálknafirði mættu um hundrað manns eða um þriðjungur bæjarbúa.

Árið 1998 var með svipuðum hætti, Súkkat kom eitthvað fram einir og sér en einnig sem Megasukk og Punstráin, en um haustið leit þriðja plata dúettsins ljós nokkuð óvænt og var nokkuð frábrugðin þeim tveim fyrri hvað hljóðfæraleik snerti og einnig komu lög og textar úr ýmsum og ólíkum áttum þó svo að flest þeirra væru eftir þá félaga. Þannig átti Megas lag og texta á plötunni, og bæði voru þar lög og textar eftir utanaðkomandi, svo ekki sé minnst á þrjú tökulög – þar af eitt á ensku, lagið Suspicion, önnur tökulög voru Lafir það litla, úr fórum Kamarorghesta og Framtíðardraumar sem hafði verið á plötunni Áfram stelpur. Hljóðfæraleikurinn á plötunni, sem hlaut titilinn Ull, var nú all frábrugðinn fyrri plötum, minimalisminn var nú að mestu horfinn úr tónlistinni og í stað hans var nú mun fjölbreytilegri hljóðfæraleikur oft skreyttur með flautuleik eða heilli hljómsveit ef því var að skipta. Hljómsveitin Botnleðja kom m.a.s. við sögu í einu laganna (Fjalladúfan hressa). Þessar breytingar gerðu gott fyrir plötuna og gagnrýnendur voru á einu máli um að þessi þróun væri af hinu góða enda fékk platan frábæra dóma í DV og Morgunblaðinu og mjög góða í Degi, og reyndar varð platan í öðru sæti í ársuppgjöri DV eftir áramótin. Nokkur laganna féllu í kramið og nutu vinsælda s.s. Sódawathnesystur og Draumur um straum þar sem dúettinn naut m.a. annars aðstoðar barnakórs undir stjórn Lárusar H. Grímssonar sem einmitt lék á flautu á Ull. Meðal annarra gesta á plötunni má nefna Megas, Birgi Bragason, Guðlaug Kr. Óttarsson, Gunnar Erlingsson, Hörð Bragason, félagana úr Puntstráunum og Jens Hansson sem einnig hljóðritaði plötuna. Og allur hópurinn var meira og minna með á útgáfutónleikum sem haldnir voru í Iðnó. Loks kom svo að því að Súkkat hlyti textaverðlaunin á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars 1999 en þau verðlaun féllu í skaut dúettsins í kjölfar þriðju tilnefningar þeirra til verðlaunanna.

Súkkat árið 1998

Dúettinn Súkkat hafði nú fengið nýja ásýnd nú þegar platan kom út með fjölda aðstoðarmanna og það var því við hæfi að þeir félagar kæmu fram ásamt aðstoðarmönnum, þannig komu þeir fram sem hljómsveit á „þorrablóti“ í Kaffileikhúsinu snemma árs 1999 og léku stundum sem slík eftir það – sem eins konar ballhljómsveit um tíma. Dúetta útgáfa Súkkats tók þó aftur við og svo samstarfið við Megas eins og fyrr og voru þeir nokkuð áberandi um sumarið í spilamennsku, komu m.a. fram á folk festivalinu Undir bláhimni um verslunarmannahelgina en um haustið hurfu þeir af sjónarsviðinu um nokkurra mánaða skeið enda hafði Súkkat starfað nokkuð samfleytt í nokkur ár og fannst e.t.v. kominn tími á smá hlé.

Á nýrri öld birtist Súkkat aftur eftir nokkurra mánaða hlé vorið 2000 en það var rétt til að fara aftur í pásu, í kjölfarið leið langur tími þar til dúettinn kom aftur fram á sjónarsviðið en þeir komu þá fram ásamt KK og Hundi í óskilum í Borgarleikhúsinu vorið 2002, þá hafði Gunnar Örn búið erlendis í tvö ár og var nú aftur kominn heim til Íslands. Í framhaldinu kom Súkkat fram í nokkur skipti á árinu, oftast þó ásamt Megasi undir Megasukks-nafninu. Í kjölfarið tók við skeið þar sem þeir störfuðu mestmegnis með Megasi, komu yfirleitt fram einu sinni í mánuði á stöðum eins og Grand rokk en einnig trúbadorahátíð á Egilsstöðum, Innipúkanum um verslunarmannahelgina, Menningarnótt o.þ.h. Plata kom svo út árið 2005 með Megasukk en hún hafði titilinn Hús datt, og þannig starfaði tríóið um skeið.

Súkkat kom eitthvað lítillega fram eitt og sér á þessum árum og árið 2007 var gerður sjónvarpsþáttur með dúettnum í þáttaröðinni Söngvaskáld, varla er þó hægt að segja að Súkkat hafi verið starfandi heldur komu þeir félagar fram stöku sinnum og þá líklega einvörðungu með eldra efni.

Heimildir herma að Súkkat hafi ekki komið fram opinberlega síðan 2009 og þá undir Megasukk-nafninu, Hafþór hefur á síðustu árin fengist við tónlist, sungið á plötu Guðmundar Guðmundssonar – Fjólur og verið í samstarfi við Gímaldin (Gísla Magnússon son Megasar) en Gunnar Örn hefur alveg horfið af tónlistarsjónarsviðinu.

Efni á plötum