Söngfélag Árborgar (1922-30)

Söngfélag vestur-Íslendinga í Árborg í Manitoba í Kanada var afar öflugt á þriðja áratug síðustu aldar en þá bjó þar og starfaði söngfræðingurinn Brynjólfur Þorláksson sem þá hafði þegar skapað sér nafn hér heima áður en hann fluttist vestur um haf. Félagið bar nafnið Söngfélag Árborgar og innihélt í raun tvo kóra – annars vegar blandaðan kór og hins vegar barnakór, sá síðarnefndi varð fjölmennastur með um 65 börn en yfirleitt voru um 80 manns í söngfélaginu. Áður höfðu einhverjar tilraunir verið gerðar með söngfélag, árið 1914 hafði söngkennarinn Jón Friðfinnsson komið og kennt söng um tíma og tveimur árum síðar skemmti „vel æfður“ söngflokkur á skemmtun undir stjórn S. Sigurðsson en söngurinn náði ekki að festa rætur á þeim slóðum strax.

En Söngfélag Árborgar var stofnað haustið 1922 og strax þá um veturinn urðu kórarnir vel æfðir og vöktu strax eftirtekt. Smám saman höfðu þeir unnið sér inn frábært orðspor fyrir vel æfðan söng, og eftir að hafa fyrst um sinn aðallega sungið á söngskemmtunum í heimabyggðinni fór söngfélagið víðar um Manitoba fylkið til að syngja fyrir Íslendinga.

Söngfélag Árborgar starfaði líklega til ársins 1930 en um það leyti fluttist Brynjólfur á brott, og þremur árum síðar var hann svo aftur farinn heim til Íslands.