Söngfélag Mountain byggðar (1926-29)

Söngfélag var starfrækt meðal Vestur-Íslendinga í Mountain í Norður-Dakóta sem ýmist var kallað Söngfélag Mountain byggðar eða Mountain söngfélagið.

Félagið var starfandi að minnsta kosti á árunum 1926 til 29 og líklega ekki alveg samfellt því starfsemi þess virðist hafa verið að nokkru leyti háð heimsóknum Brynjólfs Þorlákssonar söngkennara sem fór á milli staða á Íslendingaslóðum og kenndi söng en hann staldraði þá við um hríð á hverjum stað. Innan söngfélagsins í Mountain voru einhverju sinni þrír kórar sem nutu þannig leiðsagnar Brynjólfs, kór ungs fólks sem innihélt um 75 söngmeðlimi, blandaður kór með um 35 manns og tvöfaldur karlakvartett.

Verkefni söngfélagsins á opinberum vettvangi virðast ekki hafa verið mörg en meðal þeirra var þó sameiginlegt verkefni kóra Íslendingabyggðanna í nágrenninu þegar sameinaður kór þeirra söng á 50 ára afmælishátíð landnáms Íslendinga í Norður Dakóta undir stjórn Brynjólfs.

Þegar segir hér að ofan að starfsemi félagsins hafi ekki verið alveg samfelld þá er rétt að geta þess að við Víkursöfnuðinn í Mountain starfaði kirkjukór á sama tíma svo sönglífið í héraðinu var að líkum öllu líflegra en með söngfélaginu einu.