Söngvakeppni Sjónvarpsins 2012 – Mundu eftir mér / Never forget

Greta Salóme og Jón Jósep

Snemma hausts 2011 höfðu breytingar verið boðaðar á fyrirkomulagi undankeppni Eurovision, þá var reiknað með að könnun yrði gerð meðal þjóðarinnar sem myndi kjósa lagahöfunda í keppnina, og þeir höfundur myndu semja lög sem kepptu til úrslita á einu úrslitakvöldi. Þetta nýja fyrirkomulag virðist ekki hafa náð hljómgrunni einhvers staðar í ferlinu og fáeinum vikum síðar var fallið frá því og gefið út að keppnin yrði með óbreyttu sniði, fimmtán lög myndu keppa til úrslita á þremur undankvöldum og úrslitin færu svo fram í febrúar. Nýlundan í þessu var hins vegar að úrslitin færu fram í nýju tónlistarhöllinni, í Eldborgarsal Hörpu í fyrsta sinn.

164 lög bárust í keppnina og fimmtán þeirra komust í undankeppnina: Aldrei segja aldrei – sungið af Írisi Lind Verudóttur (lag og texti Pétur Arnar Kristinsson), Aldrei sleppir mér – í flutningi Gretu Salóme Stefánsdóttur, Guðrúnar Árnýjar Karlsdóttur og Heiðu Ólafsdóttur (lag og texti Greta Salome Stefánsdóttir), Augun þín – sungið af Svenna Þór (lag Hilmar Hlíðberg Gunnarsson, texti Þorsteinn Eggertsson), Eilíf ást – flutt af Herberti Guðmundssyni (lag Herbert Guðmundsson og Svanur Herbertsson, texti Herbert Guðmundsson), Ég kem með – í flutningi Ellerts H. Jóhannssonar (lag Ellert H. Jóhannsson, texti Mikael Tamar Elíasson), Hey – í flutningi Simba og Hrútspunganna (lag og texti Magnús Hávarðarson), Hjartað brennur – sungið af Regínu Ósk Óskarsdóttur (lag María Björk Sverrisdóttir, Fredrik Randquist, Marcus Frenell og Anna Andersson, texti Kristján Hreinsson og Anna Andersson), Hugarró – sungið af Magna Ásgeirssyni (lag Sveinn Rúnar Sigurðsson, texti Þórunn Erna Clausen), Leyndarmál – flutt af Írisi Hólm (lag Sveinn Rúnar Sigurðsson, texti Þórunn Erna Clausen), Minningar – sungið af Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur (lag og texti Valgeir Skagfjörð), Mundu eftir mér – flutt af Jóni Jósepi Snæbjörnssyni og Gretu Salóme Stefánsdóttur (lag og texti Greta Salóme Stefánsdóttir), Rýtingur – með Fatherz‘n‘Sonz (lag og texti Gestur Guðnason og Hallvarður Ásgeirsson), Stattu upp – flutt af Bláum ópal  (lag og texti Ingólfur Þórarinsson og Axel Árnason), Stund með þér – sungið af Rósu Birgittu Ísfeld (lag Sveinn Rúnar Sigurðsson, texti Þórunn Erna Clausen), Við hjartarót mína – sungið af Aðalheiði Ólafsdóttur (lag og texti Árni Hjartarson). Þarna vakti nokkra athygli að Sveinn Rúnar Sigurðsson átti þrjú lög af þeim fimmtán sem kepptu til úrslita og Greta Salóme tvö.

Sex laganna, Aldrei sleppir mér, Hey, Hjartað brennur, Hugarró, Mundu eftir mér og Stattu upp komust áfram og dómnefnd keppninnar hleypti Stund með þér einnig áfram sem sjöunda lagið í úrslitin sem fóru sem fyrr segir í Hörpu laugardagskvöldið 11. febrúar og seldist þeir þúsund miðar sem í boði voru upp á um fimm mínútum. Lag Gretu Salóme, Mundu eftir mér sem þau Jón Jósep Snæbjörnsson (Jónsi í Í svörtum fötum) fluttu bar sigur út býtum en lagið þótti bera nokkurn keim af austur-evrópskri þjóðlagahefð og var þannig meðvitað unnið með að fá þau land á band Íslands. Auk þess að syngja lék Greta Salóme á fiðlu og fetaði þannig í fótspor Alexanders Rybak sem sigraði Eurovision tveimur árum fyrr. Jónsi var þarna að fara í annað sinn í keppnina en hann hafði einmitt farið sem fulltrúi Íslands til Istanbul vorið 2004. Vægi milli símakosningar og dómnefndar skiptist til helminga og að keppni lokinni kom í ljós að Blár ópal hefði hlotið um 700 símaatkvæðum meira heldur en sigurlagið þannig að dómnefndin hafði í raun kosið Mundu eftir mér en þjóðin kosið Stattu upp, vegna þessa kom upp töluverð gagnrýni á fyrirkomulagið. Nokkur umræða var einnig í aðdraganda og kjölfar keppninnar hvort sniðganga ætti lokakeppni Eurovision sem fara ætti fram í Baku í Aserbaídsjan en þar í landi höfðu yfirvöld ítrekað gerst sek um mannréttindabrot einkum í garð samkynhneigðra, Páll Óskar Hjálmtýsson startaði þeirri umræðu sem vakti heilmikla athygli og sitt sýndist hverjum en ekki fór svo að Ísland drægi sig úr keppninni.

Undirbúningurinn fyrir úrslit Eurovision var með nokkrum hefðbundnum hætti, smáskífa var gefin út og einnig komu lögin úr undankeppninni út á árlegri safnplötu – Söngvakeppni Sjónvarpsins 2012, þá var gert myndband við lagið sem nú hafði fengið enskan texta og titilinn Never forget. Lagið hlaut ágætar viðtökur og veðbankar spáðu því góðu gengi en þegar stóri dagurinn rann upp þann 26. maí (eftir að hafa komist í gegnum niðurskurðinn fyrra undankvöldið) reyndist 20. sætið hlutskipti Íslands að þessu sinni sem ætti að þykja þokkalegur árangur en fjörutíu og tvær þjóðir öttu kappi, hin sænska Loreen sigraði með Euphoria en það lag varð strax sígilt Eurovision lag og hljómar líklega oftast allra slíka laga í seinni tíð.

Reyndar var Greta Salóme vægast sagt önnum kafin þarna um vorið því samhliða öllum Eurovision-önnum var hún að ljúka mastersprófi í tónlist við Listaháskólann. Síðla sumars sendi hún svo frá sér breiðskífu sem nokkuð var stíluð á evrópska markaðinn.

Efni á plötum