Söngvakeppni Sjónvarpsins 2011 – Aftur heim / Coming home

Vinir Sjonna

Óhætt er að segja að framkvæmd undankeppni Eurovision hafi verið í nokkru uppnámi eftir óvænta atburði mitt í miðri keppninni árið 2011 sem varð til þess að framlag Íslendinga um vorið var sveipað sorg en var um leið falleg minningarathöfn um höfundinn.

Þegar lagahöfundar og keppendur voru kynntir til sögunnar undir lok árs 2010 var þar að finna eins og yfirleitt áður blöndu tónlistarfólks með reynslu úr keppninni og nýliða, þarna voru t.a.m. kunnugleg nöfn eins og Jóhanna Guðrún, Sigurjón Brink, Pétur Örn Guðmundsson og Jógvan Hansen en alls höfðu borist 174 lög í keppnina. Fyrirkomulag hennar var hið sama og árið á undan, fimmtán lög kepptu um að verða framlag Íslands í Þýskalandi vorið 2011 og keppt var á þremur undankvöldum þar sem tvö lög áttu að fara áfram hvert kvöld, sex lög myndu síðan keppa til úrslita um miðjan febrúar.

Lögin fimmtán voru Aftur heim (lag Sigurjón Brink / texti Þórunn Erna Clausen) flutt af Sigurjóni, Ástin mín eina (lag og texti Arnar Ástráðsson) flutt af Ernu Hrönn Ólafsdóttur, Beint á ská (lag Tómas Hermannsson og Orri Harðarson / texti Rakel Mjöll Leifsdóttir) í flutningi Rakelar Mjallar, Ef ég hefði vængi (lag og texti Haraldur Reynisson) flutt af höfundinum, Eldgos (lag Matthías Stefánsson / texti Kristján Hreinsson) í flutningi Matthíasar Matthíassonar og Erlu Bjargar Káradóttur, Elísabet (lag og texti Pétur Örn Guðmundsson) sungið af Pétri Erni, Ég lofa (lag Jógvan Hansen og Vignir Snær Vigfússon / texti Sigurður Örn Jónsson) flutt af Jógvan, Ég trúi á betra líf (lag Hallgrímur Óskarsson / texti Eiríkur Hauksson og Gerard James Borg) í flutningi Magna Ásgeirssonar, Huldumey (lag Ragnar Hermannsson / texti Anna Þóra Jónsdóttir) sungið af Hönnu Guðnýju Hitchon, Lagið þitt (lag og texti Ingvi Þór Kormáksson) í flutningi Bödda og JJ Soul Band, Morgunsól (lag og texti Jóhannes Kári Kristinsson) í flutningi Georgs Alexanders Valgeirssonar, Nótt (lag María Björk Sverrisdóttir, Marcus Frenell og Beatrice Eriksson / texti Magnús Þór Sigmundsson) flutt af Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur, Sáluhjálp (lag og texti Pétur Örn Guðmundsson) flutt af hljómsveitinni Buff, Segðu mér (lag Jakob Jóhannsson / texti Tómas Guðmundsson) sungið af Bryndísi Ásmundsdóttur og Þessi þrá (lag og texti Albert Guðmann Jónsson) í flutningi hljómsveitarinnar Íslensku sveitarinnar.

Framkvæmd keppninnar komst í uppnám eftir fyrsta undankvöldið þar sem Ástin mín eina og Ef ég hefði vængi höfðu tryggt sér áframhaldandi þátttöku en á mánudeginum lést Sigurjón Brink höfundur og flytjandi lagsins Aftur heim eftir að hafa fengið heilablóðfall á heimili sínu. Aðstandendur keppninnar og Sigurjóns þurftu því að hafa hraðar hendur með framhaldið og að lokum var ákveðið að nokkrir nánir vinir Sigurjóns í tónlistarbransanum (flestir hinna sömu og fluttu Waterslide með honum í undankeppninni 2010) myndu flytja lagið undir nafninu Vinir Sjonna en það lag átti að keppa á þriðja og síðasta undanúrslitakvöldinu, aðeins tveimur dögum eftir jarðarförina. Þá var um leið ákveðið að þrjú lög myndu fara áfram í keppninni það kvöldið enda þótti nokkuð ljóst að lag Sigurjóns Aftur heim myndi fara áfram í ljósi aðstæðna. Á öðru undanúrslitakvöldi keppninnar komust lögin Eldgos og Nótt áfram og þegar þriðja undankvöldið rann upp gerðist það sem reiknað hafði verið með að Aftur heim fór áfram eftir tilfinningaþrunginn flutning og Ég lofa og Ég trúi á betra líf fylgdu með í úrslitin.

Það voru því sjö lög sem kepptu til úrslita, og þar eins og vænta mátti sigraði Aftur heim með talsverðum yfirburðum, ómögulegt er að segja hvernig laginu hefði vegnað ef ekki hefðu þessar aðstæður komið til en það hlýtur engu að síður að hafa verið sigurstranglegt.

Vinir Sjonna og Þórunn Erna Clausen ekkja Sigurjóns fengu nokkurt andrými eftir sigurinn hér heima en litlar breytingar voru gerðar á laginu aðrar en að það yrði flutt á ensku undir titlinum Coming home í keppninni í Düsseldorf í Þýskalandi. Smáskífa kom svo út með laginu (í nokkrum útgáfum) og einnig kom það út á þrefaldri afmælissafnplötu sem kom út í tilefni þess að 25 ár voru þá liðin frá því að Gleðibankinn keppti í Bergen 1986. Öll lögin úr undankeppninni hér heima komu svo út á safnplötunni Söngvakeppni Sjónvarpsins en hefð hafði verið fyrir slíku mörg undanfarin ár á undan.

Íslenski hópurinn fór utan til Þýskalands án mikilla væntinga í ljósi aðstæðna, markmiðið var fyrst og fremst að klára verkefnið með sóma en ekki voru gerðar neinar alvöru tilraunir með að fylgja því eftir með áframhaldandi spilamennsku nema e.t.v. hér heima á Íslandi. Þriðja árið í röð kom nafn Íslands síðast upp úr umslagi á fyrra undanúrslitakvöldinu í Düsseldorf og Vinir Sjonna og Coming home voru því meðal keppenda á sjálfu úrslitakvöldinu 14. maí, þar sigraði Aserbaídsjan en íslenska framlagið hafnaði í 20. sæti og mátti ágætlega við una og þar með lauk þeim tilfinningalega rússíbana sem keppnin hafði verið fyrir fjölskyldu og vini Sjonna frá því í ársbyrjun. Ekki var heldur annað að sjá en að þjóðin væri sátt með árangurinn.

Efni á plötum