Söngvakeppni Sjónvarpsins [1] [tónlistarviðburður] (1981)

Söngvakeppni Sjónvarpsins 1981

Pálmi Gunnarsson fangar sigri í Söngvakeppni Sjónvarpsins 1981

Söngvakeppni Sjónvarpsins (hin fyrri) var aðeins haldin einu sinni, snemma vors 1981 en hugmyndin með henni var að gefa áhugasömum laga- og textahöfundum tækifæri til að koma efni sínu á framfæri, upphaflega var gert ráð fyrir að þetta yrði eins konar undankeppni Eurovision söngkeppninnar.

Keppnin hafði verið auglýst með góðum fyrirvara og um fimm hundruð lög bárust í hana en þrjátíu þeirra kepptu til úrslita í fimm þáttum, sem teknir voru upp í sjónvarpssal. Sjötti þátturinn var síðan úrslitaþáttur tíu laga, sendur út í beinni útsendingu 7. mars 1981.

Mikið tilstand var í kringum keppnina og áhugi mikill en fimm hundruð manns í sjónvarpssal og á landsbyggðinni voru í dómnefnd. Fyrirfram voru sex söngvarar ráðnir til að syngja lögin þrjátíu og sætti það fljótlega nokkurri gagnrýni, söngvararnir voru Björgvin Halldórsson, Ragnhildur Gísladóttir, Haukur Morthens, Pálmi Gunnarsson, Helga Möller og Jóhann Helgason. Egill Ólafsson var kynnir og tíu manna hljómsveit undir stjórn Magnúsar Ingimarssonar annaðist hljóðfæraleik.

Skemmst er frá því að segja að lög sem Pálmi Gunnarsson söng, lentu í þremur efstu sætunum. Í fyrsta sæti lenti lagið Af litlum neista eftir Guðmund Ingólfsson, ungan sálfræðinema frá Hvammstanga. Lagið kom síðan út á samnefndri smáskífu Pálma um sumarið ásamt laginu í þriðja sæti, Á áfangastað eftir Vigni og Albert Bergmann en bæði lögin urðu töluvert vinsæl. Lagið í öðru sæti hét Ástarfundur og var eftir Ingva Stein Sigtryggsson, það kom út á stórri plötu Pálma, Í leit að lífsgæðum, síðar sama ár,.

Að minnsta kosti þrjú önnur lög meðal þeirra tíu sem kepptu í úrslitaþættinum, rötuðu inn á plötur. Fyrst er að nefna lagið Eftir ballið en það flutti Ragnhildur Gísladóttir í keppninni, hljómsveitin Miðaldamenn gaf það hins vegar út á lítilli plötu um sumarið og naut það nokkurra vinsælda. Lagið Sýnir sem Helga Möller söng í keppninni, er eftir Bergþóru Árnadóttur sem gaf það út á plötunni Bergmál ári síðar og lagið Ég syng fyrir vin minn eftir Jón Rafn Bjarnason kom út á lítilli plötu sem bar heitið Vinur og kom út þetta sama vor. Ragnhildur Gísladóttir hafði sungið það í keppninni.

Lögin fjögur sem eftir standa frá úrslitakvöldinu hafa líkast til aldrei komið út á plötum en þau voru Vina, mundu eftir mér flutt af Björgvini Halldórssyni, Heimsins viðundur í flutningi Jóhanns Helgasonar, Hjá þér með Hauki Morthens og Á heimleið sem Ragnhildur og Pálmi fluttu saman.

Keppnin var ekki haldin aftur þrátt fyrir mikið áhorf og vinsældir og eru sjálfsagt margar ástæður fyrir því s.s. mikill kostnaður, auk þess var keppnin umdeild og þótti fólki eitt og annað athugavert við framkvæmd keppninnar, lélegar laga- og textasmíðar, söngurinn aðeins í höndum fárra söngvara og svo má ekki gleyma því að keppnin var haldin í miðri íslensku rokk- og pönkbyltingunni þar sem megnið af yngra fólkinu leit orðið á söngvarana sem samansafn „skallapoppara“ og vildi fá Bubba Morthens og aðra slíka til að syngja þess konar lög.

Það hefði þó áreiðanlega verið tilraunarinnar virði að endurtaka leikinn að ári, þá búið að sníða ýmsa vankanta af þessari fyrstu stóru sönglagakeppni Islendinga. Bíða þurfti til ársins 1986 eftir að Ísland keppti í Eurovision-söngvakeppninni og til 1989 eftir annarri sambærilegri keppni, Landslaginu.