Söngvakeppni Sjónvarpsins 1986 – Gleðibankinn / Bank of fun

Söngvakeppni Sjónvarpsins 86

Hrafn Gunnlaugsson afhendir Magnúsi Eiríkssyni verðlaunin í fyrstu undankeppni Eurovision

Ríkissjónvarpið, sem hafði yfirumsjón með undankeppni Eurovision hér heima (enda aðili að Eurovision-samtökunum) blés í lúðra haustið 1985 eftir að hafa sótt um aðild að keppninni og fyrsta undankeppnin hér heima var haldin snemma árs 1986 með pomp og prakt.

Auglýst hafði verið eftir framlögum í byrjun desember 1985 og þegar fresturinn rann út höfðu tæplega þrjú hundruð lög borist í keppnina. Tíu lög voru valin til að keppa til úrslita í undankeppninni hér heima en þau voru kynnt í fimm stuttum þáttum vikurnar á undan. Sitt sýndist hverjum um gæði laganna en fljótlega tók yfir í umræðunni hvaða húsnæði hentaði best til að halda lokakeppnina ef svo færi að Íslendingar ynnu keppnina.

Eftirtalin lög kepptu til úrslita laugardagskvöldið 15. mars; Ef (í flutningi Björgvins Halldórssonar), Ég lifi í draumi (með Björgvini einnig), Gefðu mér gaum (sem Eiríkur Haukssonar söng), Gleðibankinn (flutt af Pálma Gunnarssyni), Með vaxandi þrá (flutt af Björgvini Halldórssyni og Ernu Gunnarsdóttur), Mitt á milli Moskvu og Washington (með Eiríki Haukssyni), Syngdu lag (með Pálma Gunnarssyni), Út vil ek (flutt af Pálma Gunnarssyni og Ernu Gunnarsdóttur), Vögguvísa (í flutningi Ernu Gunnarsdóttur) og Þetta gengur ekki lengur (flutt af Eiríki Haukssyni).

Vögguvísu var vísað úr keppni eftir að höfundur lagsins, Ólafur Haukur Símonarson hafði rofið nafnleynd þá er fylgdi þátttökunni en umræða hafði komið upp, um hvort lagið væri löglegt þar eð hluti þess hafði heyrst í fréttum Ríkissjónvarpsins, í kjölfarið hafði Ólafur Haukur komið fram í fjölmiðlum og rofið nafnleyndina. Daginn fyrir úrslitin var þó ákveðið að lagið fengi að vera með, þá hafði ennfremur heyrst kvittur um að annað lag hefði verið flutt opinberlega en engin eftirmál urðu af því.

Spennan varð gífurlega og óhætt er að segja að ekki hafi verið köttur á kreiki meðan á beinni útsetningu Sjónvarpsins stóð. Ekki dró úr spennunni að norski dúettinn Bobbysocks sem sigraði lokakeppnina árið áður, var staddur á landinu og söng m.a. sigurlagið frá árinu áður, La det swinge, í sjónvarpssal.
Úrslitin urðu þau að Gleðibankinn sigraði og þá kom í ljós að höfundur lagsins var Magnús Eiríksson. Í framhaldinu var ákveðið að Pálmi myndi syngja lagið í aðalkeppninni í Bergen ásamt Eiríki Haukssyni og Helgu Möller og tóku þau upp nafnið Icy-hópurinn.

Smáskífa með laginu (á íslensku og ensku) Gleðibankinn / Bank of fun leit dagsins ljós og þjóðin fylgdist með undirbúningi hópsins. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og DV. Almenn bjartsýni ríkti því og fljótlega var ljóst að þjóðin myndi ekki sætta sig við neitt minna en fyrsta sætið í keppninni.
Lagið hlaut einnig ágætar viðtökur erlendis af því er fjölmiðlar greindu frá og umræðan um hvar halda skyldi keppnina spratt upp aftur, nú hálfu meira áberandi en áður. Í fjölmiðlum var t.d. talað um að það þyrfti að fá einhverja nágrannaþjóðina með okkur sem gæti lagt til nógu stórt tónleikahúsnæði, svo öruggir urðu menn um sigurinn.

Engin plata var gefin út í tengslum við keppnina hér heima en mörg laganna komu út á plötum, Ég lifi í draumi varð t.a.m. á plötu flytjandans, Björgvins Halldórssonar þetta sama ár og höfundurinn, Eyjólfur Kristjánsson söng það inn á plötu tveimur árum síðar. Með vaxandi þrá eftir Geirmund Valtýsson kom út á safnplötunni Skýjaborgir síðar um árið en ekki á plötu með höfundinum fyrr en 1989. Syngdu lag kom einnig út á Skýjaborgum undir flytjendanafninu Geimsteinn en lagið var eftir Rúnar Júlíusson og Þóri Baldursson, María systir Þóris og unnusta Rúnars söng það síðan inn á sólóplötu 1992. Vögguvísa Ólafs Hauks Símonarsonar kom út sama ár á plötunni Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir en á henni var að finna tónlistina úr leikriti því sem lagið var upphaflega í, Edda Heiðrún Backman flytur lagið þar. Önnur lög úr úrslitakeppninni hafa aldrei komið út.

Væntingarnar um Gleðibankann voru miklar en þær urðu fljótlega að engu laugardagskvöldið 3. maí þegar keppni var lokið í Bergen og stigagjöfin hafin. Lagið endaði í 16. sæti og ljóst var að þjóðin hafði verið særð, meira að segja Norðurlandaþjóðirnar virtust hafa snúið baki við frændur sína, Íslendingana.
Fólkið á götunni hafði ýmsar skýringar á takteinum þegar fjölmiðlar fóru á stúfana, mest áberandi var sú að norska útvarpshljómsveitin hefði verið svo léleg að hún hefði hreinlega eyðilagt lagið. Eiríkur Hauksson, einn þremenninganna í Icy-hópnum sagði að lagið hefði hreinlega verið of nútímalegt fyrir keppnina.

Það sem er fremur kaldhæðnislegt við þetta fyrsta framlag Íslendinga í Eurovision er að útsetjari Gleðibankans og um leið stjórnandi hljómsveitarinnar var enginn annar en Gunnar Þórðarson, einn af þeim sem tekið hafði þátt í Alternativfestivalinu í Svíþjóð nokkrum árum áður.

Efni á plötum