Hljómsveit Björgvins Halldórssonar (1982-83 / 1992-)

Hljómsveit Björgvins í Sovétríkjunum

Björgvin Halldórsson hefur starfrækt fjölmargar þekktar hljómsveitir í gegnum tíðina en fæstar þeirra hafa verið í hans eigin nafni, í raun mætti segja að um nokkrar sveitir sé að ræða en hér eru þær settar fram sem tvær – annars vegar Hljómsveit Björgvins Halldórssonar sem stofnuð var utan um fræga tónleikaferð til Sovétríkjanna haustið 1982 og starfaði svo með breyttri skipan um eins árs skeið eftir þá ferð – hins vegar Hljómsveit Björgvins Halldórssonar sem hefur starfað með mislöngum hléum og með mismunandi skipan meðlima frá því um 1990 og fram á þessa daga, og er raunverulega margar hljómsveitir sem settar hafa verið saman fyrir verkefni sem legið hafa fyrir hverju sinni.

Hljómsveit sú sem sett var á laggirnar síðsumars 1982 hafði sér nokkurn aðdraganda en hún var sett saman sérstaklega fyrir mánaðarlangan tónleikatúr um Sovétríkin. Tildrögin með stofnun hennar voru þau að Jón Ólafsson (kenndur við Hljómplötuútgáfuna og Skífuna) hélt sendinefnd menntamálaráðuneytisins í Sovétríkjunum móttöku í Naustinu árið 1980 en nefndin var þá stödd hérlendis í tengslum við sovéskan ballethóp sem var með sýningu hér. Þessi nefnd annaðist inn- og útflutning á listafólki frá og til Sovétríkjanna og Jón reyndi að koma á tónleikaferð með Björgvini Halldórssyni í því skyni að komast sem útgefandi inn á markaðinn austantjalds sem var risastór en að mestu lokaður, Björgvin var um það leyti söngvari Brimklóar og vinsælasti söngvari þjóðarinnar.

Ekkert gerðist í framhaldinu um tveggja ára skeið enda var sovéska kerfið í öllu mjög svifaseint en sumarið 1982 opnaðist hins vegar fyrir málið og Björgvini bauðst að fara austur fyrir járntjald með hljómsveit með mánaðartúr fyrir höndum. Brimkló var um þetta leyti að leggjast í dvala en stofnuð var ný hljómsveit utan um verkefnið og var hún í fyrstu kölluð Bo Halldórsson og sendiherrarnir en hlaut síðan nafnið Hljómsveit Björgvins Halldórssonar (einnig kölluð Stórhljómsveit Björgvins Halldórssonar). Meðlimir hinnar nýju hljómsveitar voru auk Björgvins þeir Björn Thoroddsen gítarleikari, tveir Svíar – Hans Rolin trommuleikari og Mikael Berglund bassaleikari (sem höfðu komið hingað til lands með Birni frá Bandaríkjunum), Hjörtur Howser hljómborðsleikari og Magnús Kjartansson hljómborðsleikari.

Hljómsveit Björgvins Halldórssonar sumarið 1982

Til að spila sig saman fyrir ferðina fór sveitin í sveitaballtúr um landsbyggðina síðsumars ásamt grínhópnum Úllen dúllen doff en svo var farið í beinu framhaldi af þeim túr til Sovétríkjanna þar sem sveitin lék á tuttugu og sjö tónleikum í átta borgum fyrir um fimmtíu þúsund manns á þrjátíu dögum og lögðu að baki um tuttugu þúsund kílómetra. Sveitin lék á tónleikunum mestmegnis lög sem Björgvin hafði gert vinsæl hér heima en einnig fluttu þeir félagar efni eftir Magnús Kjartansson og Björn Thoroddsen, viðtökurnar urðu feikigóðar og áhorfendur tóku vel við sér víðast hvað – þó ekki of vel því yfirvöld höfðu gætur á að fólk sleppti ekki af sér beislinu.

Eins og vænta mátti gekk á ýmsu í ferðinni enda vissu menn ekki alveg hvað þeir voru að fara í varðandi t.d. aðbúnað (t.d. hreinlæti og mat) og tækjabúnað en sveitin hafði með sér tól og tæki, rótara og hljóðmann – hópurinn varð t.a.m. fyrir því að þarlendir tollverðir skrúfuðu tækjabúnað sveitarinnar meira og minna í sundur en settu hann ekkert endilega saman aftur, ennfremur var með í för blaðamaður á vegum Morgunblaðsins, Arnaldur Indriðason (síðar þekktur rithöfundur) sem gerði ferðinni skil í nokkrum greinum í blaðinu undir yfirskriftinni Rokkað í Rússíá. Ferðalangarnir þurftu einnig að kljást við matareitranir og önnur veikindi, sem í að minnsta kosti einu tilfelli var ekki unnið á fyrr en heim var komið.

Meðlimir hljómsveitarinnar létu vel af ferðinni austur fyrir járntjald og þrátt fyrir að hún gæfi ekkert af sér fjárhagslega skemmtu menn sér ágætlega og kynntust lífinu í Sovétríkjunum, ferðin skilaði þó engu útgáfulega séð fyrir Jón Ólafsson enda voru (og eru) hugmyndir þarlendra um söluprósentur og réttindamál höfunda með öðrum hætti en tíðkast í Evrópu.

Þegar heim var komið starfaði hljómsveitin áfram og lék t.d. á Broadway um jólin þar sem Helga Möller kom fram með sveitinni. Á nýju ári (1983) léku þeir félagar fram á vorið í tónlistarsýningu á Broadway (og í Sjallanum á Akureyri) undir yfirskriftinni Rokk-hátíðin þar sem fjöldi eldri rokksöngvara kom við sögu s.s. Þorsteinn Eggertsson, Mjöll Hólm, Anna Vilhjálms og fleiri en sveitin lék bæði á sýningunum sjálfum sem og á dansleik á eftir. Síðsumars fór hljómsveitin svo í aðra ferð um landið ásamt Úllen dúllen doff hópnum og hætti svo störfum að henni lokinni um haustið, þá höfðu orðið nokkrar breytingar frá upphaflegu útgáfu sveitarinnar – Björgvin, Björn Thoroddsen og Hjörtur Howser voru áfram en auk þeirra voru Rafn Jónsson trommuleikari, Pétur Hjaltested hljómborðsleikari, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari, Rúnar Georgsson saxófónleikari og Þorleifur Gíslason saxófónleikari í sveitinni á Broadway, og þegar sveitin fór balltúrinn um sumarið hafði Magnús Kjartansson hljómborðsleikari aftur komið í stað Péturs og Smári Eiríksson trommuleikari hafði leyst Rafn af, blásararnir voru ekki með í för.

Hljómsveit Björgvins árið 1992

Tvö lög að minnsta kosti voru hljóðrituð með þessari sveit í Hljóðrita í Hafnarfirði, annars vegar lagið I can‘t take it no more sem kom út á safnplötunn Einmitt (1983) og svo Trúbrotslagið To be grateful sem kom út á Fyrstu árin 2 (1992). Hljómsveitin kom aftur saman árið 2018 þegar Björn Thoroddsen hélt upp á 60 ára afmæli sitt.

Hljómsveit Björgvins Halldórssonar hin síðari er margar hljómsveitir undir þessu samnefni en fjöldi sveita í hans nafni hafa komið fram á tónlistarsýningum og dansleikjum frá því laust upp úr 1990, líklega 1992. Sveit í hans nafni var þá í Súlnasal Hótel Sögu tengt sýningu Gysbræðra á söguslóðum og lék þar á dansleikjum, þá sveit skipuðu auk Björgvins þeir Þórir Baldursson hljómborðsleikari, Þórður Árnason gítarleikari, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari, Einar Valur Scheving trommuleikari og Kristinn Svavarsson saxófónleikari. Ári síðar (1993) kom sveitin við sögu sýningarinnar Er það satt sem þeir segja um landann? en sú útgáfa sveitarinnar (sem ekki er að finna upplýsingar um) lék einnig á árshátíðum og almennum dansleikjum víða um land.

Á næstu árum poppuðu hljómsveitir í nafni Björgvins reglulega upp og voru sjálfsagt skipaðar mismunandi mönnum hverju sinni, á árunum 1997 til 1999 léku sveitir við fjölmörg tækifæri s.s. á árshátíðum og almennum dansleikjum, og svo þorrablótum Íslendinga á Florida en engar upplýsingar finnast um skipan þeirra sveita. Það sama er að segja um hljómsveitir á árunum 2006 til 2008 en þar má m.a. nefna risastórt þorrablót í Kaplakrika í Hafnarfirði, stórtónleika Björgvins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Laugardalshöll og tónleika sveitarinnar í Cirkusbygningen í Kaupmannahöfn.

Eftir hrun hefur nafn hljómsveita í nafni Björgvins verið minna áberandi, slík sveit lék þó við opnun Bæjarbíós í Hafnarfirði 2014 en hana skipuðu auk Björgvins þeir Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari, Jón Elfar Hafsteinsson gítarleikari, Jóhann Hjörleifsson trommuleikari og Friðrik Sturluson bassaleikari, sveit með sama nafni starfaði ári síðar en engar upplýsingar er að finna um skipan hennar en sveitirnar eru sjálfsagt enn fleiri en hér hafa verið tíundaðar.

Að ofangreindu má sjá að erfitt er að skrásetja nákvæmlega allar hljómsveitir sem starfað hafa í nafni Björgvins Halldórssonar og réttast væri að tala um þá fyrstu (sem fór til Sovétríkjanna) sem hina einu sönnu.