Hilmar Oddsson (1957-)

Hilmar Oddsson

Hilmar Oddsson er fyrst og fremst kvikmyndagerðarmaður en hann hefur einnig í gegnum tíðina fengist við tónlist með margvíslegum hætti, sem tónskáld og textahöfundur, hljóðfæraleikari og söngvari, og eftir hann liggja tvær útgefnar plötur.

Hilmar er fæddur 1957 í Reykjavík og stundaði sem barn nám í Barnamúsíkskólanum en þar lærði hann á selló og hugsanlega fleiri hljóðfæri. Samhliða því námi var hann í einhverri skólahljómsveit en kom einnig fram í barnaóperum sem settar voru á svið á sínum tíma og kom m.a. þannig fram í Sjónvarpinu, ekki liggur fyrir hvort hann var í leikarahlutverki eða hljóðfæraleikara. Hilmar var á unglingsárum sínum virkur í leiklistinni, bæði með Leikfélagi Seltjarnarness og í Menntaskólanum í Reykjavík þar sem hann stundaði nám en hann var formaður Herranætur þar.

Á menntaskólaárunum var hljómsveitin Melchior stofnuð en þar lék Hilmar á píanó og fleiri hljóðfæri reyndar. Sú sveit gaf út sjö tommu smáskífu árið 1974 og fjórum árum síðar kom svo út breiðskífan Silfurgrænt ilmvatn með sveitinni, á henni samdi Hilmar nokkur laganna og þeirra á meðal var vinsælasta lag plötunnar – Alan en textann við lagið samdi Hallgrímur H. Helgason.

Hilmar var á þessum árum farinn að semja í auknum mæli og m.a. fyrir leikhús, hann samdi ásamt Hróðmari Inga Sigurbjörnssyni félaga sínum í Melchoir tónlistina við leikritið Krukkuborg sem sett var á svið Þjóðleikhússins en höfundur þess verks var Oddur Björnsson faðir Hilmars. Hann átti síðar eftir að semja tónlist við fleiri verk föður síns.

Hugur Hilmars snerist til kvikmyndagerðar og hann fór til München í V-Þýskalandi til að nema þau fræði. Að því loknu hófst kvikmyndaferill hans en tónlistin var þó aldrei langt undan. Fyrsta kvikmynd Hilmars, Eins og skepnan deyr var frumsýnd vorið 1986 en fyrir jólin 1985 kom út sjö laga plata – Skepnan sem hafði að geyma tónlist Hilmars sjálfs úr myndinni. Tvö laga hennar nutu fádæma vinsælda og hafa æ síðan talist til klassískra poppsmella, lagið Allur lurkum laminn sem Bubbi Morthens söng og svo Önnur sjónarmið, sem annar aðalleikari myndarinnar, Edda Heiðrún Backman söng. Platan hlaut góða dóma í DV og Vikunni.

Hilmar Oddsson

Á næstu árum tók kvikmyndagerðin eðlilega alveg yfir og Hilmar leikstýrði, framleiddi og kom að kvikmyndagerð með ýmsum hætti, bæði almennri kvikmyndagerð sem og fyrir sjónvarp, þá leikstýrði hann einnig leikritum í sjónvarpi og útvarpi. Hann gaf sér þó tíma til að senda frá sér eina sólóplötu árið 1989, hún bar heitið Og augun opnast en vakti ekki eins mikla athygli og Skepnu-platan nokkrum árum fyrr. Hún hlaut þó ágæta dóma í DV en tónlistin var öll eftir Hilmar sjálfan og margir textanna einnig.

Árið 1995 kom Hilmar að tónlistartengdu stórvirki í íslenskri kvikmyndagerð þegar hann leikstýrði myndinni Tár úr steini en hún fjallaði um ævi og störf Jóns Leifs tónskálds. Fleiri kvikmyndir eftir hann hafa síðan litið dagsins ljós s.s. Sporlaust (1998), Kaldaljós (2003), Desember (2009) og Á ferð með mömmu (2023) en samhliða þeim verkefnum hefur hann einnig áfram sinnt sjónvarpsþáttagerð af ýmsu tagi sem fyrr, kennt kvikmyndafræði og stýrt Kvikmyndaskóla Íslands um árabil. Hann hefur auk þess að einhverju leyti samið nokkuð af tónlist og textum í verkum sínum – bæði kvikmyndum og leikritum, s.s. í Desember og Tári úr steini, og samið fyrir aðra tónlistarmenn t.d. Hróðmar Inga Sigurbjörnsson félaga sinn úr Melchior. Sú sveit var endurreist snemma á nýrri öld og hefur starfað með hléum síðan og gefið út tónlist m.a. eftir Hilmar, t.d. kom hún fram á tónleikum í Salnum í Kópavogi sem Hilmar hélt í tilefni af sextugs afmæli sínu, þar kom einnig fram hljómsveit sem kölluð var Skepnan og flutti lög af plötum Hilmars.

Ævistarf Hilmars tengist þó alltaf fyrst og fremst kvikmyndagerð. Hann er margverðlaunaður á því sviði og hefur jafnframt starfað að félagsmálum kvikmyndagerðarmanna og reyndar einnig tónlistarmanna því hann var um nokkurra ára skeið í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þess má geta að Hera Hilmarsdóttir leikkona er dóttir Hilmars og Þóreyjar Sigþórsdóttur leikkonu.

Efni á plötum