Hilmar H. Gunnarsson (1949-)

Hilmar H. Gunnarsson

Ekki hefur farið mikið fyrir Hilmari H. Gunnarssyni tónlistarmanni en honum hefur þó skotið upp með reglulegu millibili í íslenskri tónlist.

Hilmar Hlíðberg Gunnarsson er fæddur  haustið 1949 í Reykjavík, hann hefur ekki numið tónlist nema af sjálfum sér en hóf að semja tónlist um fermingaraldur. Árið 1970 virðist sem tvö lög eftir hann hafi verið hljóðrituð í Klúbbnum og ætluð til útgáfu en ekki virðist hafa orðið af þeirri plötuútgáfu – Magnús Kjartansson, Gunnar Þórðarson og Rúnar Júlíusson komu eitthvað við sögu á þeim upptökum.

Hilmar kom fram í fáein skipti sem trúbador á fyrri hluta áttunda áratugarins, m.a. á þjóðlagahátíð í Tónabæ en það var svo árið 1977 sem hann ákvað að gefa út plötu með eigin efni og hafði þá fengið Magnús Kjartansson með sér í það verkefni, reyndar fór svo að Hilmar klessukeyrði bifreið sína skömmu áður en farið skyldi í Hljóðrita í Hafnarfirði en bílinn hafði átt að nota til að fjármagna upptökurnar og útgáfuna. Um svipað leyti setti gamall vinur Hilmars, Magnús Þór Sigmundsson sem þá bjó í Englandi, sig í samband við Hilmar og bauð honum að koma til London til að hljóðrita plötuna og svo fór að platan var tekin upp í Majestic studios og kom svo út um haustið 1977 undir titlinum Skin og skúrir en Hilmar gaf plötuna sjálfur út. Litlar sögur fara af því hvernig plötunni reiddi af, hún virðist ekki hafa selst mikið og ekki hlaut hún mikla athygli fjölmiðla á þeim tíma. Svo virðist sem aðeins einn dómur hafi birst um plötuna, það var í Tímanum og hlaut hún þokkalega dóma þar.

Hilmar fylgdi plötunni lítið sem ekkert eftir og lítið spurðist til hans á tónlistarsviðinu næstu árin, árið 1980 tók hann þó þátt í hæfileikakeppni þeirri sem Dagblaðið og Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar stóðu fyrir á Hótel Sögu en hann mun ekki hafa vakið neina sérstaka athygli þar. Það var svo árið 1989 en fjögurra laga plata (tvö lög með og án söngs) leit dagsins ljós undir titlinum Konan (K.O.N.A.N.) en lög og texta samdi Hilmar og flutti í samstarfi við nokkra þekkta tónlistarmenn, ágóði af sölu plötunnar rann til Dyngjunnar, áfangaheimilis fyrir konur sem voru að komast á beinu brautina eftir fíkniefnavanda – höfundarrétturinn af lögunum rann einnig til þeirra og þar með öll stefgjöld.

Ári síðar (1990) átti Hilmar svo lag í Landslags-keppninni svokölluðu en það vakti töluverða athygli og kom reyndar söngkonunni Sigrúnu Evu Ármannsdóttur á kortið, lagið Ég fell í stafi sigraði reyndar ekki í keppninni en vakti verðskuldaða athygli og heyrist reyndar enn reglulega leikið á ljósvakamiðlum.

Nafn Hilmars kom reglulega fram á sjónarsviðið næstu árin, árið 1996 flutti Jóhann Helgason lag eftir hann á safnplötunni Lagasafnið 5 og árið 2006 átti hann lagið Tíminn er kominn í sönglagakeppninni Ljósalaginu tengt Ljósahátíð í Keflavík, það hafnaði í þriðja sæti og kom út á plötu tengt keppninni. Árið 2012 var hann svo meðal lagasmiða í undankeppni Eurovision þar sem Svenni Þór flutti lag hans – Augun þín.

Hilmar H. Gunnarsson virðist öðru hverju vera að vinna að frumsaminni tónlist en hann hefur þó ekki gefið út plötu aftur.

Efni á plötum