Hitt og þetta (1972-73)

Hitt og þetta

Þjóðlagatríóið Hitt og þetta fór víða um með skemmtanir sínar en um var að ræða tríó í anda Ríó tríósins þar sem boðið var upp á frumsamda tónlist og sprell eins og gamansögur og eftirhermur.

Hitt og þetta komu fyrst fram haustið 1972 með dagskrá sína og eftir áramótin voru þeir töluvert áberandi í skemmtanahaldi sínu, komu fram m.a. á Svartsengishátíðinni snemma sumars og í Álfaskeiði á Skeiðum um verslunarmannahelgina en voru jafnframt með fasta dagskrá á vegum Ferðaleikhússins sem sérhæfði sig í þjóðlegu efni fyrir erlenda ferðamenn, þá komu þeir félagar mikið fram á árshátíðum og slíkum skemmtunum.

Hitt og þetta skipuðu þeir Helgi R. Einarsson (Þrjú á palli o.fl.) gítarleikari, Atli Viðar Jónsson gítar-, bassa- og flautuleikari og Halldór Ásgeirsson gítarleikari, allir sungu þeir félagarnir. Þeir höfðu uppi hugmyndir um að gefa út tólf laga plötu með frumsömdu efni en af þeim áformum varð þó ekki.

Hitt og þetta hætti störfum um haustið 1973.