Eftirlitið (1988-91)

Eftirlitið1990

Eftirlitið

Hljómsveitin Eftirlitið starfaði í kringum 1990, hugði á plötuútgáfu og stóra drauma en varð lítið ágengt þótt henni auðnaðist að koma út lögum á safnplötum.

Eftirlitið var stofnað snemma árs 1988 af þeim Davíð Frey Traustasyni söngvara og gítarleikara (sem hafði verið söngvari Rauðra flata), Gunnari Hilmarssyni bassaleikara, Einar Val Scheving trommuleikara og Braga Einarssyni gítarleikara. Fleiri höfðu komið við sögu sveitarinnar í kringum fæðingu hennar en þetta var sú útgáfa sem spilaði fyrst opinberlega vorið 1988. Fljótlega kom Kolbeinn Einarsson gítarleikari (annar gamall liðsmaður Rauðra flata) og tók við af Braga. Eitthvað var á reiki hvers konar tónlist Eftirlitið spilaði, í fyrstu töluðu þeir félagar um reggískotið rokk í blaðaviðtölum, síðar rokk með djassívafi og enn síðar um fönkrokk.

Sveitin hóf fljótlega að vinna frumsamið efni og fór í hljóðver til að taka upp, í blaðaviðtölum voru þeir með háleitar hugmyndir um tónlistarbransann á Íslandi og um plötuna sem fyrirhugað var að gefa út. Og fátt benti til annars en að þeir væru að gefa út plötu, eitthvert ósætti virtist þó innan sveitarinnar og síðsumars voru þeir aðeins tveir eftir, Davíð Freyr og Gunnar. Heilmiklar mannabreytingar urðu í Eftirlitinu næstu mánuðina, trommuleikari að nafni Hlynur Sölvi [?] og gítarleikari að nafni Lárus [?] höfðu stuttan stans í bandinu áður en annar trymbill, Ingi [?] kom við sögu, það var sumarið 1989. Enn töluðu þeir sveitarliðar þó um að platan væri rétt á leiðinni og nú var kominn titill á hana – Stanz. Í framhaldinu fór þó lítið fyrir Eftirlitinu í fjölmiðlum en sveitin birtist enn síðla sumars 1990 og var þá kominn í eins konar fönk gír. Tveir nýir meðlimir voru þá komnir í hópinn, gömlu reynsluboltarnir Gunnar Erlingsson trommuleikari (Frakkarnir o.fl.) og Þorsteinn (Stanya) Magnússon gítarleikari (Eik, Þeyr o.fl.). Þannig var sveitin skipuð þar til hún loks hætti alveg sumarið 1991.

Þrátt fyrir að platan margumtalaða kæmi aldrei út með Eftirlitinu komu út tvö lög með sveitinni á safnplötum, annars vegar á plötunni Hitt og þetta aðallega hitt alla leið (1990), á plötuumslagi eru flytjendur sagðir vera Davíð Freyr og Gunnar, auk Sigfúss Arnar Hilmarssonar trommuleikara, Birgis Guðmundssonar gítarleikara, Jakobs F. Magnússonar píanóleikara og Einars Jónssonar básúnuleikara. Ekki liggur þó fyrir hvort aðrir en Davíð Freyr og Gunnar voru í sveitinni, ólíklegt hlýtur allavega að teljast að Jakob og Einar hafi verið í sveitinni. Hins vegar kom út lag með sveitinni á safnplötunni Úr ýmsum áttum (1991), engar upplýsingar voru um sveitina á plötuumslagi. Sögu Eftirlitsins lauk þar með sumarið 1991 með þessum tveimur minnisvörðum.