Íslandsvinir (1990-92)

islandsvinir

Íslandsvinir

Hljómsveitin Íslandsvinir fór mikinn á ballstöðum á höfuðborgarsvæðinu og víðar í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar og keyrðu mjög á einsmellungnum Gamalt og gott, sem inniheldur m.a. textalínuna „Gætum við fengið að heyra eitthvað íslenskt – eitthvað gamalt og gott“, sem menn kyrja reglulega ennþá gjarnan á fjórða eða fimmta glasi.

Sveitin var að öllum líkindum stofnuð í byrjun árs 1990 og þá strax um sumarið sendi sveitin frá sér tvö lög á safnplötunni Hitt og þetta aðallega hitt alla leið, sem gefin var út undir merkjum Skífunnar. Annað þeirra var fyrrgreint lag – Gamalt og gott, og var það á plötuumslagi sagt vera með Danshljómsveit Hjalta Guðgeirssonar ásamt Íslandsvinum. Danshljómsveit Hjalta var aldrei til frekar en Hjalti Guðgeirsson sem var uppdiktaður bóndi og harmonikkuleikari en margir stóðu í þeirri meiningu að persónan væri raunveruleg. Lagið sló í gegn sem fyrr segir.

Meðlimir Íslandsvina voru þarna Kári Waage söngvari, Pálmi J. Sigurhjartarson hljómborðsleikari og söngvari, Jón Borgar Loftsson trommuleikari, Björn Vilhjálmsson bassaleikari og Einar Þorvaldson gítarleikari.

Þarna á upphafsmánuðum sveitarinnar annaðist hún undirleik í leikritinu Skítt með‘a eftir Valgeir Skagfjörð, sem Leikfélag Kópavogs setti á fjalirnar, og vakti það nokkra athygli.

Íslandsvinir léku á fjölmörgum dansiböllum í kjölfar velgengni Gamalt og gott, og áttu víst sæti á safnplötu næsta sumar, reyndar var það hljómplötuútgáfan Steinar sem var útgefandinn í þetta skiptið en safnplatan hét Bandalög 3. Á henni átti sveitin tvö lög og reyndar einnig á plötunni Landslagið 1991 sem kom út um haustið, en á þeirri plötu var að finna lög sem komist höfðu í úrslit Landslagsins, lagakeppni sem haldin var í fáein skipti um og upp úr 1990.

Þá hafði Eðvarð Lárusson gítarleikari gengið til liðs við sveitina í stað Einars en einnig var Sigurður Jónsson saxófónleikari kominn í hana, þá voru Íslandsvinir orðnir sextett.

Í byrjun árs 1992 virðist sem Íslandsvinir hafi tekið nokkurra mánaða pásu frá spilamennsku, þegar sveitin birtist aftur að þeirri pásu lokinni voru meðlimir orðnir átta talsins, ekki liggur þó fyrir hverjir skipuðu þá sveitina. Ari Einarsson gítarleikari mun hafa verið í henni um skamman tíma en ekki er víst að það hafi verið á þessum tíma.

Íslandsvinir störfuðu ekki lengi eftir þetta og svo virðist sem sveitin hafi hætt um vorið eða sumarið 1992.