Tommi rótari (1990-91)

Tommi rótari

Hljómsveitin Tommi rótari var starfrækt á Selfossi í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar og var skipuð liðsmönnum um tvítugt, sem flestir áttu eftir að láta að sér kveða síðar í íslenskri popptónlist.

Sveitin mun hafa orðið til í kringum uppfærslu áhugafólks á Selfossi um leiklist og kom þá að söngleiknum Glórulausri æsku sem sett var á svið á Hótel Selfossi sumarið 1990. Síðar var sveitin öflug á sunnlenska ballmarkaðnum og komst reyndar í fréttir þegar lögreglurannsókn var sett af stað vegna dansatriðis sem boðið var upp á á dansleik sveitarinnar í félagsheimilinu Njálsbúð. Þar var á ferð dansdúóið Space guys með umdeilt framlag þar sem við sögu komu jólasveinabúningar, berir rassar og trommukjuðar.

Meðlimir Tomma rótara voru Björn Sigurðsson bassaleikari, Vignir Þór Stefánsson hljómborðsleikari, Einar Bárðarson gítarleikari og söngvari, Stefán Hólmgeirsson trommuleikari og Sigurður Fannar Guðmundsson söngvari. Þórir Gunnarsson bassaleikari og Heimir Eyvindarson hljómborðsleikari tóku síðar við af Birni og Vigni og þannig starfaði sveitin eitthvað fram á 1991 þegar hún hætti.

Tommi rótari hefur stöku sinnum komið fram í seinni tíð og 2007 átti sveitin lag á safnplötunni Gleðilegt sumar!