Hinir guðdómlegu Neanderdalsmenn (1991-)

Hinir demonísku Neanderdalsmenn

Hinir guðdómlegu Neanderdalsmenn hefur verið starfandi með hléum allt frá árinu 1991 en gekk fyrstu árin undir nafninu Hinir demonísku Neanderdalsmenn. Sveitin hefur sent frá sér plötu og lög á safnplötum.

Sveitin var stofnuð í Keflavík árið 1991 og gekk sem fyrr segir undir nafninu Hinir demónísku Neanderdalsmenn, tónlist sveitarinnar hefur verið skilgreind sem pönk en það er þó eitthvað óljóst hvers konar tónlist þarna er um að ræða.

Ekki liggur ljóst fyrir hverjir skipuðu hana framan af en líklegt hlýtur að teljast að meðlimir hafi að mestu verið hinir sömu og voru í henni síðar – í einhverjum heimildum er sveitin sögð vera tríó. Þeir félagar komu nokkuð fram bæði á tónleikum á Suðurnesjunum en einnig á höfuðborgarsvæðinu, m.a. á tónleikum óháðu listahátíðarinnar Ólétt ´93 í Faxaskála sumarið 1993.

Vorið 1994 skipti sveitin um nafn og hét nú Hinir guðdómlegu Neanderdalsmenn, hér var sveitin skipuð þeim Ingibergi Þór Kristinssyni trommuleikara, Sigurði Eyberg Jóhannessyni bassaleikara og söngvara, Magnúsi Sigurðssyni söngvara og banjóleikara og Þresti Jóhannessyni gítarleikara og söngvara og þannig var skipan hennar um haustið þegar sveitin átti lag á keflvísku safnplötunni Innrás, Kornflex og Kanaúlpur. Árið 1995 kom svo annað lag út með þeim félögum á safnplötunni Strump í fótinn. Sveitin spilaði töluvert á tónleikum á þessum tíma en var þó líklega hætt störfum í bili þegar síðarnefnda safnplatan kom út.

Hinir guðdómlegu Neanderdalsmenn

Lítið spurðist til Hinna guðdómlegu Neanderdalsmanna næstu árin og líklega starfaði hún mjög slitrótt. Þeir félagar komu stöku sinnum saman þótt þeir kæmu ekki endilega fram opinberlega, sveitin lék þó á rokktónleikum í Keflavík árið 2006. Hún var fólki þó síður en svo gleymd því keflvíska pönksveitin Æla hafði á plötu sinni frá árinu 2005 lag sem bar nafnið Óður til Hinna guðdómlegu Neanderdalsmanna.

Það var svo árið 2012 sem sveitin sendi frá sér sína fyrstu plötu, tíu laga skífu sem bar titilinn Fagnaðarerindið. Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu og Fréttatímanum en það sem vakti kannski mesta athygli varðandi útgáfu plötunnar var saga í kringum lagið Hjálp.

Upphaflega höfðu sveitarmeðlimir notað texta Bítlanna við lagið Help og smíðað sitt eigið lag utan um þann texta, þeir náðu loks sambandi við Paul McCartney eftir krókaleiðum til að fá leyfi hans fyrir textanum sem var auðsótt mál af hans hálfu enda mun honum hafa litist ágætlega á hina nýju lagasmíð – hins vegar setti hann þá kröfu í staðinn að hann (og John Lennon) yrðu einnig skráðir höfundar að laginu. Það sættu Hinir guðdómlegu Neanderdalsmenn sig illa við og í staðinn sömdu þeir félagar nýjan texta við lagið, sem bar einfaldlega nafnið Hjálp.

Hinir guðdómlegu Neanderdalsmenn

Á plötunni eru meðlimir sveitarinnar þeir sömu og fyrr, Ingibergur Þór Kristinsson trommuleikari, Magnús Sigurðsson gítarleikari, Sigurður Eyberg söngvari, munnhörpu- og saxófónleikari og Þröstur Jóhannesson gítarleikari en einnig var nú í sveitinni bassaleikarinn Sverrir Ásmundsson. Ekki liggur fyrir hvort hann hafði þarna verið lengi í sveitinni.

Hinir guðdómlegu Neanderdalsmenn eru eftir því sem best er vitað enn starfandi og leikur stöku sinnum opinberlega á tónleikum.

Efni á plötum