Golan (1993)

Golan var skammlíft djass- eða bræðingsverkefni sett saman fyrir Rúrek djasshátíðina vorið 1993. Sveitina skipuðu þeir Óskar Guðjónsson saxófónleikari, Magnus Johansen píanóleikari, Arnold Ludwig bassaleikari og Einar Valur Scheving trommuleikari.

Wonderhammondsveitin Ísbráð (1999)

Sumarið og haustið 1999 fór Wonderhammondsveitin Ísbráð um landið með tónleika og lék fönkdjasstónlist, m.a. eftir Stevie Wonder. Meðlimir Ísbráðar voru þeir Einar Scheving trommuleikari, Óskar Guðjónsson saxófónleikari, Þórir Baldursson Hammond-orgelleikari og Jóhann Ásmundsson bassaleikari. Birgir Baldursson leysti Einar af hólmi þegar haustaði.

Villingarnir [2] (2001)

Árið 2001 störfuðu þeir Óskar Guðjónsson saxófónleikari, Herb Legowitz (Magnús Guðmundsson) plötusnúður og Matthías M.D. Hemstock slagverksleikari saman undir nafninu Villingarnir. Þeir fluttu á tónleikum verk fyrir plötusnúða, saxófón og slagverk, eins og sagt var í auglýsingu fyrir viðburðinn en ekki liggur fyrir hvort þeir störfuðu eitthvað saman áfram undir þessu nafni.

Íslenski hljóðmúrinn (1998-99)

Íslenski hljóðmúrinn var samstarfsverkefni Jóhanns Jóhannssonar og Óskars Guðjónssonar veturinn 1998-99 og e.t.v. lengur. Þeir Jóhann og Óskar léku eins konar tilraunatónlist á tölvu og saxófón og komu fram í nokkur skipti á uppákomum tengdum tónleikaröðinni Tilraunaeldhúsinu sem þá var í gangi.

Nornaseiður (1998)

Djassbandið Nornaseiður var sett saman fyrir eina uppákomu á vegum Jazzklúbbs Akureyrar sumarið 1998 en tilefnið var að þrjátíu ár voru þá liðin frá því að Miles Davis sendi frá sér plötuna Bitches brew. Meðlimir Nornaseiðs voru Hilmar Jensson gítarleikari, Óskar Guðjónsson saxófónleikari, Eyþór Gunnarsson píanóleikari, Snorri Sigurðarson trompetleikari, Guðni Finnsson bassaleikari og Ólafur Björn…

Astral sextett (1996)

Astral sextettinn var starfandi 1996 og átti þá lag á safnplötunni Súper 5. Meðlimir voru þar Einar Scheving trommuleikari, Þórður Högnason bassaleikari, Hilmar [?] gítarleikari, Árni Scheving víbrafónleikari, Óskar Guðjónsson saxófónleikari og Helgi Björnsson söngvari. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um Astral sextettinn.

Hljóð í skrokkinn (2004)

Djasssveitin Hljóð í skrokkinn starfaði um tíma árið 2004. Meðlimir sveitarinnar voru Óskar Guðjónsson saxófónleikari, Ómar Guðjónsson gítarleikari, Erik Quick trommuleikari og Ólafur Stolzenwald bassaleikari. Líklega varð samstarf þeirra ekki lengra en sem nam fáum mánuðum.

Útlendingarnir (2006)

Hljómsveitin Útlendingarnir var starfandi 2006 og var með einhverju djassívafi. Þetta var tríó skipað þeim Óskari Guðjónssyni saxófónleikara, Scott McLemore trommuleikara og Simon Jermyn bassaleikara. Að öllum líkindum hafa þeir einungis komið saman þetta eina ár.