
Straumar og Stefán
Hljómsveitin Straumar og Stefán var sálarhljómsveit sem segja má að hafi starfað undir þeim formerkjum sem Sálin hans Jóns míns gerði í upphafi en sveitin var einmitt að mestu leyti skipuð meðlimum sem á einhverjum tímapunkti störfuðu í Sálinni.
Sveitin kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1998 og lék þá í fáein skipti soul tónlist á dansleikjum, þeir Stefán Hilmarsson söngvari og Jón Ólafsson hljómborðsleikari voru meðal stofnmeðlima sveitarinnar en ekki finnast upplýsingar um hverjir aðrir skipuðu hana í upphafi, þeir höfðu einmitt verið í upprunalegu útgáfu Sálarinnar (st. 1988) sem lagði áherslu á þess konar tónlist.
Næst komu Straumar og Stefán fram á sjónarsviðið sex árum síðar, árið 2004 en þá lék sveitin mun meira og þar af í nokkur skipti á Nasa við Austurvöll. Auk þeirra Stefáns og Jóns voru þá í sveitinni þeir Friðrik Sturluson bassaleikari og Jóhann Hjörleifsson trommuleikari (báðir úr Sálinni) og svo Guðmundur Pétursson gítarleikari. Þá hafði sveitin sér til fulltingis söngkonuna Regínu Ósk Óskarsdóttur, Óskar Guðjónsson saxófónleikara og Snorra Sigurðarson trompetleikara. Sveitin sendi frá sér eitt lag (Það er í lagi) á safnplötunni Svona er sumarið 2004 þetta sumar.
Ekki liggur fyrir hvort Straumar og Stefán hafi starfað eftir það.