Straumar [1] (1964-67)

Skólahljómsveitin á Bifröst sem síðar hlaut nafnið Straumar

Hljómsveitin Straumar var upphaflega skólahljómsveit í Samvinnuskólanum á Bifröst í Borgarfirði veturinn 1964-65 en hlaut líklega ekki nafn sitt fyrr en að meðlimir hennar höfðu lokið námi en hún starfaði þá áfram. Sveitin lék á dansleikjum í Borgarfirði og nágrenni næsta árið eða svo eftir það, og m.a. á héraðsmótum. Margt er óljóst varðandi Strauma enda virðast afar margir meðlimir hafa farið í gegnum sveitina, því er hér óskað eftir frekari upplýsingum um hana.

Í skólaútgáfu sveitarinnar voru meðlimir þeir Jóhann G. Jóhannsson gítarleikari, Ragnar Magnússon trommuleikari, Gunnar Ólafsson píanóleikari og Hörður Haraldsson gítarleikari, sá síðast taldi var reyndar kennari við skólann. Eftir að skólagöngu lauk um vorið starfaði sveitin í Borgarnesi með nokkuð breyttu sniði, heimildir herma að þá hafi Sigurður Halldórsson gítarleikari, Matthías Garðarsson bassaleikari, Viðar Þorgeirsson söngvari og Jón B. Stefánsson bæst í sveitina en samkvæmt því hefur Jóhann G. verið einn upprunalegu meðlima hennar – það stenst þó vart því þá hefði varla verið talað um að þetta sé sama sveit og starfaði á Bifröst. Síðar kom Methúsalem Þórisson bassaleikari í sveitina einnig.

Straumar sumarið 1965

Heimildir herma jafnframt að Smári Hannesson gítarleikari, Halldór Fannar Ellertsson og Viðar Loftsson trommuleikari hafi á einhverjum tímapunkti starfað með sveitinni. Ef svo er hlýtur sveitin að hafa starfað lengur en til sumarsins 1966 eins segir í heimildum, samkvæmt þeim sömu heimildum stofnaði Jóhann um það leyti hljómsveitina Óðmenn.

Haustið 1967 lék hljómsveit undir þessu nafni í Glaumbæ en engar upplýsingar er að finna um þá sveit nema að Inga Lára Bragadóttir og Drífa Eyvindardóttir voru söngkonur þeirrar sveitar, það gæti verið þessi sama sveit.